145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var ansi gott að fá þetta yfirlit úr umsögn Indefence sem við þingmenn sem höfum áhuga á málinu höfum kynnt okkur.

Hv. þingmaður spyr í lokin hvort það sé víst. Mér finnst umsögnin sem við erum að lesa í dag skýrlega fram sett og ansi góð, en þetta eru nákvæmlega þær spurningar sem við vorum að spyrja í gær. Ég hefði viljað geta stutt þetta mál. Ég hefði viljað að það væri svo um búið að við gætum gert þetta í sameiningu, en mér er gert það ókleift af því að ég á að taka ábyrgð á einhverju sem ég hef ekki nægilegar upplýsingar um. Við höfum enga áætlun um afnám hafta. Við fáum ekkert að sjá hvernig það geti orðið.

Framsögumaður málsins sagði í gær að það sem yrði að gerast væri að jafnræði væri þegar höftunum væri aflétt og að hún hefði trú á að það yrði í upphafi næsta árs. Seðlabankastjóri hefur líka verið mjög glaðbeittur þegar hann talar um afnám hafta fljótlega á næsta ári. Ég vona svo sannanlega að þau hafi rétt fyrir sér.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Er það tilfinning hennar að þessi von og trú þeirra sé á rökum reist?