145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það sem mér finnst svolítið merkilegt við þetta mál allt er að ég man að á síðasta kjörtímabili þegar við vorum í þessu Icesave-bixi og ég vann mjög náið ásamt þáverandi minni hluta, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, með Indefence þá var mikið traust hjá núverandi stjórnarflokkum á áliti Indefence á Icesave. Núna er svo lítil virðing borin fyrir ábendingum og áhyggjum sérfræðinganna sem þar eru innan hóps að ákveðið er að kalla þá ekki fund hjá nefndinni fyrr en eftir að málið hefur verið samþykkt á Alþingi. Mér finnst það rosalega sérstakt, ég verð að segja alveg eins og er. Það hlýtur þá að vera að þeim sem eru í forsvari fyrir efnahags- og viðskiptanefnd finnist ekki mikið til þessara ábendinga frá Indefence koma. Það finnst mér leitt.

Ég vil benda þingmönnum á, þótt við séum reyndar að verða allt of sein, þingheimi og landsmönnum, að ein besta ræðan um þessi álitamál var flutt í gær af hv. þm. Helga Hjörvar. Þar kom mjög skýrt fram af hverju við í minni hlutanum, eða mörg hver í minni hlutanum, ekki öll, erum með áhyggjur. Þeim álitamálum sem þar voru lögð fram hefur ekki verið svarað. Mér finnst áhyggjuefni til dæmis að verið sé að henda bönkunum í fangið á okkur án þess að við vitum hvert raunvirði þeirra er, en ljóst er að enginn í heiminum hefur áhuga á að kaupa þessa banka. Svo eigum við að sitja uppi með þá og sömu aðilar og einkavæddu bankana (Forseti hringir.) síðast eiga að gera það aftur. Það er áhyggjuefni.