145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt ekki vinsælt að menn fari að halda langa ræðu um þetta að kvöldi til við 3. umr. en það eru þó alveg tilefni til. Í fyrsta lagi er það aldrei gott að menn þurfi að fara út í bútasauma á tæknilega flóknu máli, lagatæknilega og skattalega flóknu máli á síðustu metrum eins og hér hefur verið að gerast á síðustu sólarhringum. Umfangsmiklar breytingartillögur og viðbótarbreytingartillögur við 2. umr. sem voru afgreiddar í dag dugðu ekki til og varð að kalla málið inn í nefnd og gera á því enn frekari breytingar.

Almennt vil ég segja um málið að mér er ekkert rórra en mér var í gær eða í fyrradag og þar á meðal ekki eftir að okkur barst í dag umsögn Indefence-hópsins sem hefur glímt við það, sem er virðingarvert, að reyna að skoða greiðslujafnaðardæmið út frá sínum forsendum. Nú ætla ég ekkert að taka ábyrgð á eða lýsa mig sammála öllum þeirra niðurstöðum, ég hef engar forsendur til þess, en þarna véla um margir hámenntaðir menn, bæði eðlis- og tölvunarfræðingar, hagfræðingar og verkfræðingar og hvað það nú er og talsverður hópur manna hefur lagt vinnu í þessa greiningu. Ég tel fulla ástæðu til að skoða hana eins og önnur gögn.

Mér er heldur ekkert rórra í sjálfu sér eftir vaxtahækkun Seðlabankans í dag. Hvað segir hún okkur annað en að Seðlabankinn meti það enn svo að það sé að byggjast upp jafnvægisleysi í hagkerfinu, að það sé hætta á ofhitnun þess? Greiningaraðilar bregðast í framhaldinu þannig við sumir hverjir að þeir rifja upp gamla tíma þegar Seðlabankinn stóð aleinn í því verkefni að reyna að halda aftur af þenslu og jafnvægisleysi í hagkerfinu en stjórnvöld reru í hina áttina. Og það er alveg rétt, því miður, það er eins og hrollvekja að upplifa þetta aftur því hvað er ríkisstjórnin að gera eða hefur verið að gera? Lækka skatta, fella niður vörugjöld og lækka tolla, ýta undir einkaneyslu, ýta undir þenslu í staðinn fyrir að vinna með Seðlabankanum. Þetta skiptir okkur máli þegar við erum að greina horfurnar hér næstu missirin, meðal annars og ekki síst í samhenginu við afnám gjaldeyrishafta.

Það var ánægjulegt að hv. þm. Frosti Sigurjónsson, forustumaður Framsóknarflokksins í efnahagsmálum og formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom með þá skýru afstöðu í andsvari áðan að menn yrðu auðvitað að gæta sín gagnvart stjórnarskránni og stjórnarskrárvörðum eignarrétti í landinu og því væru mörk sett hvað menn gætu og hvað menn gætu ekki gagnvart því. Það er hárrétt. Það var mjög verðmætt að fá þá yfirlýsingu frá forustumanni í Framsóknarflokknum. Og það sem Frosti Sigurjónsson þarf að gera er að halda námskeið fyrir hæstv. forsætisráðherra, fyrir hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir hv. þm. Ásmund Einar Daðason og reyna að sannfæra þau um og sýna þeim fram að þetta sé svona, því hvað hafa sumir framsóknarmenn undanfarin ár leyft sér að ásaka okkur hin um sem höfum talið okkur vera að ganga fram einmitt á þessum grundvelli? Það að gera upp á milli gamalla og nýrra banka með það að leiðarljósi að íslenska ríkið eða íslenskir lögaðilar í tilviki nýrra banka hafi hvorki nú né fyrr komist í aðstöðu til að ýta stjórnarskrárvörðum og lögvörðum eignarréttindum til hliðar. Sú ásökun hefur í raun og veru verið uppi. Það heitir að menn hafi gefið eða afhent banka þegar gert var upp á grundvelli þess að eignir væru ekki hafðar með löglausum hætti af mönnum hvort sem þeir væru einstaklingar, lögaðilar eða kröfuaðilar í þrotabú. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir í þessari umræðu.

Ríkisvaldið hefur hins vegar mjög ríkar heimildir til skattlagningar en skattar þurfa líka að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er ekki hægt að gera hvað sem er í þeim efnum. Skattar þurfa að vera almennir. Þeir mega ekki beinast að tilteknum einstökum aðilum sem eru bara tíndir út úr hjörð. Þeir verða að vera almennir í þeim skilningi að þeir sem eru í sömu stöðu með jafn háar tekjur, jafn miklar eignir eða jafn mikinn hagnað borgi jafn mikinn skatt, en það má að sjálfsögðu afmarka það til hverra skattskyldan tekur. Þeir mega ekki vera afturvirkir og þeir verða að þjóna lögmætum og málefnalegum tilgangi í þágu ríkis og almannahagsmuna. Hafandi sagt það þá er dómaframkvæmd sú að uppfylli skattar þessi skilyrði hefur ríkisvaldið mjög ríkar heimildir til skattlagningar. Það reyndi til dæmis á auðlegðarskattinn á síðasta kjörtímabili sem sumir reyndu að æsa sig upp í að væri eignaupptaka og ólögmætur en hann hélt með ágætum fyrir dómi enda lagður á í lögmætum og ríkum tilgangi í þágu almannahagsmuna, var almenns eðlis í þeim efnum að allir sem áttu jafn miklar hreinar eignir komu til sömu skattlagningar o.s.frv. Þetta er ágætt að hafa í huga líka þegar við ræðum þessar tvær leiðir, skattlagningar- og stöðugleikaframlagaleið.

Síðan er það önnur réttlæting, annar veruleiki sem má ekki gleyma í þessum umræðum, það er hinn efnahagslegi veruleiki á Íslandi. Í reynd er það þannig að réttlæting og málstaður og málsástæður Íslands í þessum efnum nú eru fyrst og fremst grundaðar á efnahagslegum veruleika, þeim veruleika að hér í hagkerfinu og nú lokaðar bak við gjaldeyrishöft frá hruni eru allt of miklar eignir erlendra aðila til að gjaldeyrisframleiðsla þjóðarbúsins ráði við að þær taki allt í einu allar til fótanna og fari út á fullu gengi. Þess vegna eru gjaldeyrishöft.

Mönnum varð strax við hrun þessi vandi ljós og síðan hefur myndin skýrst í gegnum það að menn greindu inn í svarthol þrotabúanna og smátt og smátt komst mynd á það hvernig eignasamsetning þeirra var, hvað voru innlendar eignir og erlendar og hver voru hlutföll innlendra og erlendra kröfuhafa. Þegar sú mynd fór að skýrast á árinu 2011 var loksins hægt að fara að meta með nokkuð nákvæmum hætti hver greiðslujafnaðaráhrifin yrðu, áhrifin á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins við uppgjör búanna. Það liggur fyrir að sá vandi er ærinn og samsettur af mörgum þáttum ef við skoðum hann fyrir þjóðarbúið í heild. Það eru ekki bara þrotabú bankanna og það eru ekki bara aflandskrónur eða jöklabréf. Það eru líka afborganir annarra aðila af erlendum lánum, það er líka þörf okkar sjálfra fyrir fjárfestingar í útlöndum, sérstaklega lífeyrissjóðanna, og allar okkar þarfir bæði á útflutningshlið og innflutningshlið sem þarf að hafa í huga í þessum efnum. Hinn efnahagslegi veruleiki er sem sagt sá að við framleiðum ekki nógan gjaldeyri og hvergi nærri nógan gjaldeyri til að geta leyst út allar þessar krónueignir og kröfur á einhverjum stuttum tíma nema með gengi sem væri algerlega óásættanlegt fyrir okkur sjálf og mundi rústa hér öllu. Það væri í sjálfu sér hægt á stuttum tíma ef við værum tilbúin til að láta gengið falla niður úr öllu valdi, þá yrði lítið úr þessum krónum þegar þeim yrði skipt yfir í evrur, dollara og pund. En það mundi hafa í för með sér skelfilega hluti fyrir okkur sem að sjálfsögðu er engin réttlæting fyrir.

Á þessum grunni getum við sagt: Það er ekki efnahagslega raunhæft og mun ekki verða að þessar eignir verði leystar allar út á fullu gengi. Kostirnir eru aðallega tveir: Að hafa hér gjaldeyrishöft, læsa þessar eignir fastar bak við gjaldeyrishöft um aldur og ævi sem er náttúrlega skelfilegur kostur eða að menn verða að sætta sig verulega verðfellingu þeirra þegar þeir fara út. Það er efnahagslegur veruleiki sem er auðvelt að kynna. Af hverju getum við gert þetta núna, t.d. með stöðugleikaskatti á eignir búanna áður en þau fá að fara? Jú, vegna þess að við höfum rétt til þess að leysa úr þessum vanda. Sem fullvalda ríki getum við að sjálfsögðu gert það. Við viljum ekki hafa þetta svona árum saman. Það er hugsunin á bak við stöðugleikaskattinn og meginréttlæting hans. Við viljum losna við þetta, gera upp búin og hreinsa þau út úr hagkerfinu. Til að það sé hægt verður að verðfella þessar krónur og ef ekki eru aðrar leiðir betri í boði þá gerum við það með skatti og segjum svo bless.

En það er auðvitað líka til sú hugsun að búin sjálf og kröfuhafarnir horfist í augu við þennan veruleika og þeir komi bara sjálfir með tillögur um að þeir gefi eftir nóg af krónueignunum til að það verði vandræðalaust fyrir okkur að gera þau upp og hreinsa þau út úr hagkerfinu að öðru leyti, það er líka kostur. Efinn er þá að þar sé nægilega vel að gert.

Það er ágætt ef menn ætla að funda með Seðlabankanum og Indefence eftir að Alþingi lýkur afgreiðslu þessa máls, það er svona í takt við samráðið eftir á sem ríkisstjórnin stundar mjög þessi missirin. Ég geri ekkert lítið úr því. Það er ágætt að Alþingi reyni að vera eins vel upplýst og mögulegt er, en það verður væntanlega litlu um breytt.

Okkur er öllum nokkur vandi á höndum að meta þetta mál. Við höfum bæði ónógan tíma og ónógar upplýsingar til að gera það í raun og veru. Þannig að það sem er sagt hér af minni hálfu að minnsta kosti er með fyrirvara um að maður hefur ekki getað sökkt sér niður í þetta í ró og næði, hafandi öll gögn og allt uppi á borðum. Það er bara því miður ekki þannig. Ríkisstjórnin er að mínu mati að falla algerlega á því prófi að leggja fyrir og upp í hendur Alþingis upplýsingar og gögn og tíma til að skoða málið þannig að hægt sé að segja eins og á að segja um frumvörp og þingmál að Alþingi hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni við afgreiðslu mála og þingnefndir.

Vandi okkar er þessi en mestur er auðvitað vandi Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn er í hroðalegum vanda í þessu máli og af því að mér er nú á margan hátt annt um Framsóknarflokkinn þrátt fyrir allt, hver sem trúir því, af sögulegum ástæðum kannski að einhverju leyti, þá hef ég aðeins velt fyrir mér þessum hroðalega vanda Framsóknarflokksins. Í hverju er vandi Framsóknarflokksins fólginn núna og þessum aðstæðum? Hann er fólginn í því að hetjurnar sjálfar, hvorki meira né minna, gaddakylfuhetjurnar sem sökuðu alla aðra um linkind og þjónkun við kröfuhafa og aumingjaskap, gott ef ekki landráð, nei, gaddakylfuhetjurnar eru bara allt í einu orðnar að blaðskelludrengjum og -stúlkum af því að það eru engir gaddar á kylfunni, hún er úr plasti. Það er núna verið að strjúka kröfuhöfunum, gera allt sem þarf til að liðka fyrir því að þeir fari úr landi á kjörum sem kunna að reynast of rausnarleg miðað við getu þjóðarbúsins og okkur sjálf og þeir eiga að fá að fara fyrstir, fá forgang þegar upp er staðið. Þá er það ekki lengur því miður sú heildstæða lausn í einum pakka sem var þverpólitísk samstaða um á síðasta kjörtímabili að ætti að vinna að. Þá starfaði nefnilega virk samráðsnefnd fulltrúa allra flokka með virtum trúnaðarmönnum frá þáverandi stjórnarandstöðuflokkum og hún lagði meðal annars til, undir lok síns starfstíma, að það væri augljóst mál að eina leið Íslands út úr þessu væru heildstæðar aðgerðir í einum pakka og skrifaði formönnum allra stjórnmálaflokka erindi um það. Sú nefnd var virk, hún lagði ítrekað gott til mála. Það var til dæmis á grundvelli tillagna frá þeirri nefnd sem þverpólitísk samstaða varð um að framlengja heimildir til að viðhafa gjaldeyrishöft og gera þær heimildir ótímabundnar. Það var á grundvelli tillagna úr þverpólitísku nefndinni. Auðvitað voru menn búnir að hugsa það víðar í bænum en nefndin lagði það beinlínis til í einu af sínum erindum og bréfum til stjórnvalda á þessum tíma.

Nú er horfið af þeirri braut, ekki bara er allt samráð fyrir bí heldur hafa málin í raun og veru tekið allt aðra stefnu en menn töldu sig hafa verið að teikna upp djúpt inn á síðasta kjörtímabil og fram undir þetta. Nú er tímalínan í þessu orðin allt önnur og ekki einn heildstæður aðgerðapakki á ferðum heldur er honum skipt í kafla og kaflaröðinni hefur verið ruglað. Í staðinn fyrir uppboð á aflandskrónum áður en þrotabúunum yrði slitið og eignir þeirra greiddar út eða þau færu í gegnum nauðasamninga þá verða uppboðin núna væntanlega einhvern tíma á útmánuðum og svo einhvern tíma síðar kemur kannski áætlun um það hvernig höftunum verði létt eða undið ofan af þeim gagnvart öðrum aðilum, almenningi, atvinnulífi, lífeyrissjóðum, fjárfestum o.s.frv. Því miður, frú forseti, þá hefur margt í þróun þessa máls síðustu vikur og mánuði ekki verið neitt ánægjuefni.