145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afar fróðlega ræðu. Ég er með örfáar spurningar sem ég vildi bera upp við hv. þingmann. Ég held að við deilum alveg sömu áhyggjum af því að við getum ekki vitað á þessum tímapunkti hvort þau stöðugleikaframlög sem Seðlabankinn hefur fallist á og telur alveg nægileg dugi, en bankinn telur að þau leysi vanda þjóðarbúsins, bæði greiðslujafnaðarvandann og tryggi fjármálastöðugleika og jafnvel ýmsar sviðsmyndir sem gætu komið upp og verið óhagfelldari en það sem núna liggur kannski beinast við. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála því sem kemur fram í umsögn Indefence að réttlætanlegt sé að krefjast meiri framlaga en eru nauðsynleg til að tryggja lífskjörin, fjármálastöðugleikann og greiðslujöfnuð í þeim sviðsmyndum sem hægt er að gera sér í hugarlund. Auðvitað geta alltaf komið upp sviðsmyndir sem væru óhagfelldari eða hagfelldari, en er það skoðun hv. þingmanns að æskilegt sé að taka meira á þessum tímapunkti ef ske kynni að hérna yrðu sérstök áföll?