145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að hluti af niðurstöðu Seðlabankans byggir á því að hluta vandans er skotið inn í framtíðina. Í fyrsta lagi þarf að hafa það í huga. Það er ekki endilega sjálfgefið og ég er ekki endilega sannfærður um að allur krónueignavandinn sé leystur út. Það er mjög erfitt og þarf einhvern gleggri mann eða mann með meiri tíma og aðgang að meiri upplýsingum en ég hef til að geta fullvissað sig um hvað mörkin liggja í þeim efnum vegna þess að sannarlega er í stöðugleikaframlagaleiðinni með fjárbindingunni verið að skjóta hluta vandans inn í framtíðina. Að hve miklu leyti það er beinlínis krónueignarvandi sem fer þangað er umdeilanlegt.

Hv. þingmaður spyr hvort það eigi að taka meira. Meira en hvað? Meira en nákvæmlega allar krónueignir búanna? Það væri hægt að ræða það prinsippíelt. En málið er jafnvel flóknara en bara það vegna þess að þá koma líka til sögunnar hlutir eins og þeir að ef við ætlum að tryggja jafnræði allra aðila, ef við ætlum að tryggja að við getum afnumið höftin þannig að allir sitji þar við sama borð, þá getur það þýtt tiltekna hluti sem kröfuhafarnir yrðu jafnvel að kyngja einfaldlega vegna þess að við höfum alveg rétt til þess. Það er málefnalegur grunnur ákvarðanatöku skattlagningar eða útgönguskatts eða þess vegna stöðugleikaframlaga að segja: Þetta eru hinar efnahagslegu aðstæður á Íslandi og til að þessi aðgerð í heild geti farið fram og á jafnræðisgrunni þá þarf þetta að vera svona. Það er því ekki víst að krónueignirnar einar og sér séu það andlag sem við eigum að skoða þetta eingöngu út frá. Ég veit að hv. þingmaður er ekki viljandi að reyna að leiða mig í gildru en það gæti verið hættulegt að ganga inn á það að reyna að svara spurningunni á niðureinfaldaðan hátt.