145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[19:45]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki annað séð en að í þessari greinargerð frá Seðlabankanum, sem er væntanlega unnin af færustu sérfræðingum Seðlabankans og út frá bestu upplýsingum sem er völ á um umfang vandans sem ætti að liggja nokkuð vel fyrir eftir öll þau ár sem við höfum verið að reyna að meta hann, komi fram að með stöðugleikaframlögunum sé búið að girða fyrir vandann, það sé búið að leysa vandann sem stafar af slitabúunum. Kannski er ekki hægt að fara fram á meira með góðu. Þau hafa gengist inn á þetta. Staðan sé líka tiltölulega góð og jafnvel svo góð að ég held að hv. þingmaður hafi haft orð á því að það væri jafnvel erfitt að halda þessi uppboð vegna þess að nú séu horfurnar orðnar svo góðar að það gæti frekar verið hætta á gjaldeyrisinnstreymi en útstreymi. Það var beinlínis það sem kom fram á fundi og hefur komið fram á fundum þar sem seðlabankastjóri hefur tjáð sig um þetta að hann telji að það sé jafnvel meiri hætta á innstreymi en útstreymi og það verði vandamál sem þurfi að glíma við, gjaldeyrisinnstreymi. Skuldastaða þjóðfélagsins gagnvart útlöndum hafi heldur ekki verið jafn hagfelld í marga áratugi.

Hv. þingmaður hafði orð á því að hér hefðu menn talað um ýmis vopn sem ríkisvaldið hefði á sínu færi til að ljúka málinu og fá slitabúin til að gera það sem gera þyrfti. Það var talað um gaddakylfur og haglabyssur og hvað eina, sem er náttúrlega stöðugleikaskatturinn sem hv. þingmaður tók þátt í að samþykkja hér. Er hann ekki sammála mér í því að án þess að stöðugleikaskatturinn hefði verið settur og með þessum tímamörkum þá hefðu slitastjórnir ekki haft mætti ég segja eðlilegan hvata til að ganga í málið á jafnræðisgrundvelli?