145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég finn þörf til að útskýra afstöðu Bjartrar framtíðar í þessu máli enn einu sinni. Við lítum svo á að við séum hér einungis að sníða vankanta af löggjöf sem var samþykkt einróma í sumar og það kemur okkur ekki á óvart að þess þurfi. Þetta er gríðarlega umfangsmikið úrlausnarefni. Það er verið að gera upp heilt gjaldþrota fjármálakerfi sem hrundi og hér erum við að samþykkja löggjöf sem gerir nauðasamninga betur kleifa. Við styðjum þetta mál og breytingartillögurnar sem eru núna lagðar fram eru lagðar fram með það sama að markmiði, að gera nauðasamningsgerðina betri og einfaldari og sníða af vankanta í þeim efnum, koma í veg fyrir að hægt sé að misnota einhverja mögulega lagaklausu. Þetta eru orðnar ansi flóknar skilgreiningar. (Forseti hringir.)

En svo er það önnur saga hvort menn styðja hugmyndir og drög að nauðasamningum sem hafa verið lögð fram (Forseti hringir.) og staðfest af Seðlabankanum og það vill svo til að okkur í Bjartri framtíð líst vel á þá leið til að gera upp búin sem hefur verið lögð fram.