145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og fyrri ræðumaður, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, fagna því að við skulum standa á þessum tímamótum. Við erum að klára þetta mál, við erum að klára uppgjör við þrotabú föllnu bankanna og gerum það með því að ná fullum greiðslujöfnuði og verja lífskjör almennings. Þetta er lokaskrefið í endurreisn efnahagskerfisins eftir fjármálahrunið sem varð 2008. Ég vil segja að þrjú mikilvæg skref hafi verið stigin. Það eru neyðarlögin sem gerðu það að verkum að við gátum tekið íslenskt bankakerfi út. Það er síðan baráttan á síðasta kjörtímabili gegn því að skuldir yrðu þjóðnýttar m.a. í gegnum Icesave-samningana og nú lokauppgjörið við slitabú föllnu bankanna. Þar verjum við lífskjör almennings í öllum þessum þáttum, verjumst því að einkaskuldir séu þjóðnýttar. Það er gríðarlegt ánægjuefni að við skulum vera á þessum stað í dag og ég segi líkt og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði áðan: Það er mikil og breið samstaða við þetta víða í samfélaginu og því ber að fagna.