145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það hefur verið þannig undanfarin þing að við höfum aldeilis þurft að nota hvern einasta dag allan veturinn til að ná að halda starfsáætlun þingsins. Við höfum þurft að vera út allan júnímánuð að jafnaði undanfarin ár svo ég held að okkur veiti ekki af að nýta allan tímann til að ljúka stórum málum, þar með talið kvöldið í kvöld. Klukkan er ekki nema að verða 9 og í dag er heimild …(Gripið fram í.) Nei, ég ætlaði að segja rúmlega 9 og það er ekki neitt. Við erum orðin þrælvön því að vera hér fram á nótt. Ég man að í tíð síðustu ríkisstjórnar þá var það alltaf kallaður aumingjaskapur þegar við þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðum athugasemd svona um miðja nótt.

Ég minnist ræðu Péturs heitins Blöndals hér úr ræðustól sem minnti á fjölskylduvæna stefnu fyrrverandi forseta en hann kafnaði eiginlega úr hlátri í miðri ræðunni enda var klukkan eitthvað um 3 um nótt. En nú er klukkan bara 20 mínútur yfir 9 og ég trúi ekki að menn ætli að fara í eitthvert málþóf út af smáatriðum. (Forseti hringir.) Hefjum bara umræðu um lokafjárlögin og tökum kvöldið og nóttina þess vegna í það ef menn eru í stuði. (Gripið fram í.)

(Forseti (ValG): Vinsamlegast hafið hljóð í salnum.)