145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að vitna í samkomulag sem var gert á mánudaginn og það var örugglega gert í góðri trú. En á mánudaginn vissum við ekki að það þyrfti að gera sérstaka aukabreytingartillögu í nefndaráliti við frumvarpið sem við vorum að ræða í dag. Við vissum ekki að það mundi dragast af þeim ástæðum fram eftir kvöldi og við vissum ekki að við þyrftum að byrja á að ræða fjáraukalög kl. hálftíu að kvöldi. Það má vera að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kalli það aumingjaskap en ég var … (Fjmrh.: Ég sagði það ekki.) Það má vera að þú munir gera það þegar ég er búin að ljúka mínu máli. Við vorum hér í umræðunni til miðnættis, vorum mætt á nefndarfund kl. 9 í morgun og við höfum verið að glíma við erfið mál og það er ekkert sem kallar á það að fjáraukalög séu rædd núna. Fjárlaganefnd hefur nóg að gera. Við erum með stórt og mikið frumvarp (Forseti hringir.) sem þarf að ræða vel og lengi sem er frumvarp um opinber fjármál sem ég er viss um að hæstv. ráðherra vill endilega að nefndin ljúki sem fyrst og við getum nýtt nefndadagana í það.