145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins vegna þessara umræðu þá er það rétt sem fram hefur komið að rætt var um það á fundi þingflokksformanna á mánudag að greiða fyrir umfjöllun um þau tvö mál sem hafa verið á dagskrá í dag, en þar voru engin loforð um lyktir mála og allt háð framvindu og fyrirvarar fyrir öllu um umfjöllun þeirra í vikunni.

Það má blasa við hverjum þjóðkjörnum fulltrúa að það fer ekki vel á því að mæla fyrir svo viðamiklu þingmáli sem fjáraukalagafrumvarpið er svo síðla kvölds sem nú er. Hér hefur komið fram ágæt tillaga frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um að fjármálaráðherra mæli fyrir því, það verði andsvör og síðan verði 1. umr. frestað. Formaður fjárlaganefndar hefur lagt áherslu á að eigi að síður verði gefið færi á umfjöllun um frumvarpið í fjárlaganefnd á morgun. Ef það getur verið með þeim fyrirvara að komi frekari upplýsingar fram um 1. umr. málsins síðar sem kalli á það að einhverjir af þeim gestum verði aftur kallaðir fyrir nefndina til frekari umfjöllunar þá held ég að það sé ágæt leið til sátta, til að greiða fyrir störfum nefndarinnar og gera um leið fjármálaráðherra kleift að mæla fyrir málinu í kvöld án þess þó að umræðunni þurfi að beina inn í nóttina svo snemma þings sem nú er.