145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[21:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú að fæðast prýðislausn á því stóra og mikla vandamáli sem virðist hvíla þungt á mörgum í þessum sal í kvöld. Ég held að það sé ágætislausn ef menn geta fallist á að fjármálaráðherra mæli fyrir sínu máli og veitt verði andsvör og fjárlaganefnd taki síðan málið á dagskrá á morgun, eins og ráðgert var, og fjármálaráðuneytið og aðrir aðilar komi þá og kynni það og menn haldi sig við þá dagskrá sem gert var ráð fyrir að yrði á morgun, að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að þeir aðilar yrðu kallaðir aftur til fundar ef nýjar upplýsingar koma fram í umræðunni þegar henni vindur fram eftir þann nefndadag sem á að vera á morgun og á mánudag.