145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[21:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Með frumvarpinu er lögð fyrir Alþingi endurskoðuð tekjuáætlun og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða á árinu 2015 í samræmi við endurmat á helstu forsendum fjárlaga og framvindu ríkisfjármálanna. Tillögurnar í frumvarpinu taka einnig eftir atvikum mið af nýrri lagasetningu, ófyrirséðum útgjöldum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um útgjöld vegna brýnna verkefna sem fram hafa komið á árinu.

Í fjárlögum ársins 2015 var annað árið í röð stefnt að því að skila afgangi á heildarjöfnuði ríkissjóðs sem svaraði til 3,5 milljarða kr. Að óbreyttu er útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs verði talsvert betri en gengið var út frá í gildandi fjárlögum. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að heildartekjur aukist um 26,4 milljarða kr. frá áætlun fjárlaga og að heildarfjárheimildir vegna útgjalda hækki um 9,4 milljarða kr. Þannig er áætlað að afgangur á heildarjöfnuði verði 20,6 milljarðar kr. á árinu 2015, þ.e. 17,1 milljarði kr. betri á rekstrargrunni en samkvæmt fjárlögum.

Stærstur hluti bættrar afkomu frá fjárlögum skýrist af um það bil 15 milljarða kr. hærri arðgreiðslum frá fjármálastofnunum en reiknað hafði verið með í forsendum fjárlaga, einkum frá Landsbanka Íslands.

Að frátöldum þeim arðgreiðslum er gert ráð fyrir að heildarafkoma yfirstandandi árs verði áþekk og áætlað var í fjárlögum. Að baki þeirri áætlun standa hins vegar talsverðar veltubreytingar og einnig innbyrðis breytingar á milli ýmissa stærða, bæði á tekju- og útgjaldahliðinni. Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði 79,9 milljarðar kr. á árinu 2015 samkvæmt þessari áætlun, en það svarar til 3,7% af vergri landsframleiðslu. Það felur í sér að frumjöfnuður batni um 12 milljarða frá gildandi fjárlögum og verði þar með umtalsvert betri á rekstrargrunni á þessu ári en gert var ráð fyrir.

Samkvæmt frumvarpinu aukast tekjur ríkissjóðs eins og fyrr segir um 26,4 milljarða kr. frá gildandi fjárlögum, þ.e. sem nemur 4% frá áætlun fjárlaga. Gert er ráð fyrir því að vaxtatekjur lækki um hátt í 700 milljónir kr. þannig að frumtekjur aukast um rúmlega 27 milljarða kr. Ber þar helst að nefna að skatttekjur aukast um 14,2 milljarða kr. vegna hagstæðari framvindu efnahagsmála á yfirstandandi ári en spár gáfu til kynna í forsendum fjárlaga. Þróun helstu skattstofna á fyrri helmingi ársins er þó í megindráttum í samræmi við áætlun fjárlaga. Á síðari hluta ársins er búist við því að einkaneyslan vaxi hraðar eftir því sem niðurstöður í kjaramálum leiða til aukningar ráðstöfunartekna heimila á sama tíma og atvinnustig verður áfram hátt, m.a. vegna vaxtar í ferðaþjónustugreinum. Þá eru arðgreiðslur í ríkissjóð 15 milljarðar kr. umfram áætlun fjárlaga, eins og áður er um getið, en um er að ræða hærri arðgreiðslur, einkum frá Landsbankanum. Á móti þessu vegur 3 milljarða lægri arðgreiðsla frá Seðlabanka Íslands og öðrum aðilum.

Ég vek athygli á því að nú í byrjun nóvember er unnið að endurmati á tekjuhorfum fyrir yfirstandandi ár, m.a. með hliðsjón af endurskoðaðri þjóðhagsspá og innheimtunni nú þegar lengra er liðið á árið. Ef að líkum lætur má vænta einhverra breytinga á áætluninni í tillögum sem koma fram fyrir 2. umr. frumvarpsins.

Frú forseti. Horfur eru á að heildarútgjöld verði 9,4 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum en að frumútgjöld hækki um 15 milljarða. Breyting á útgjöldum skiptist þannig að útgjaldaskuldbindingar aukast um 12,7 milljarða umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Á móti vegur lækkun annarra útgjaldaskuldbindinga sem nemur samtals 1,1 milljarði. Fjármagnstekjuskattur sem ríkissjóður greiðir og útgjöld sem fjármögnuð eru með mörkuðum ríkistekjum og hafa ekki áhrif á afkomu hækka um 3,4 milljarða. Loks lækka vaxtagjöld um 5,7 milljarða.

Aukning útgjaldaskuldbindinga um 12,7 milljarða skýrist í fyrsta lagi af 2,1 milljarðs kr. umframútgjöldum sjúkratrygginga samkvæmt endurmati á útgjöldum fyrri hluta ársins. Meginskýringin á halla sjúkratrygginga á yfirstandandi ári, líkt og á árinu 2014, er að ekki hefur verið gripið til ráðstafana til að breyta kostnaðarhlutdeild sjúklinga í takt við hækkun á einingaverði til sérfræðilækna í nýjum þjónustusamningi sem tók gildi í ársbyrjun 2014 líkt og forsendur fjárlaga 2015 gerðu ráð fyrir. Útlit er fyrir að halli á liðnum verði á annan milljarð króna af þessum sökum. Ef ekki verður gripið til ráðstafana á síðara hluta ársins kunna umframútgjöldin að verða nokkru meiri en hér hefur verið gert ráð fyrir.

Hér er um að ræða mál sem þó nokkuð hefur verið rætt um hér í þingsal á þeirri forsendu að ríkið hafi nú þegar hækkað gjaldskrárnar. Ég hef margítrekað bent á það í ræðustól að það hefur ekki orðið þótt það hafi verið boðað og af þeim sökum hefur ríkið eftir gerð samninga við sérfræðilækna létt mjög verulega, sem nemur þessum fjárhæðum sem við erum hér að ræða um, kostnaðarhlutdeild af sjúklingum. Þessu er mikilvægt að halda til haga í umræðunni um kostnaðarhlutdeild sjúklinga.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir viðbótarframlögum til framkvæmda á ferðamannastöðum og til styrkingar og viðhalds á vegakerfinu vegna stóraukins ferðamannastraums til landsins. Annars vegar er gert ráð fyrir 1,8 milljarða kr. einskiptisframlagi til Vegagerðarinnar sem skiptist í 1,3 milljarða stofnkostnaðarframlag til tiltekinna vegaframkvæmda og hins vegar 500 millj. kr. framlag til styrkingar, endurbóta og viðhalds á bundnu slitlagi á umferðarmiklum vegum. Þær vegaframkvæmdir sem framlagið rennur til eru Dettifossvegur, Kjósarskarðsvegur, Kaldidalur og Uxahryggir.

Hins vegar er gert ráð fyrir 850 millj. kr. einskiptisframlagi til uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Með auknum ferðamannafjölda hefur þörfin fyrir uppbyggingu og viðhald innviða á ferðamannastöðum orðið aðkallandi enda margir staðir sem liggja undir skemmdum. Í ljósi þess að vinnu við fyrirkomulag á fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum hefur seinkað er brugðist við á yfirstandandi ári með almennum framlögum úr ríkissjóði. Gera má ráð fyrir að tekjuöflun á móti verði áfram til skoðunar og gæti komið til framkvæmda síðar.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 1,2 milljarða kr. auknu framlagi vegna hækkana á eftirlaunum bótaþega í B-deild LSR sem þegar hafa hafið töku lífeyris. Um er að ræða aukin útgjöld með hliðsjón af greiðslum fyrstu níu mánuði ársins ásamt framreikningi það sem eftir lifir árs. Framreikningurinn inniheldur aðeins upplýsingar um fjárhæðir sem þegar hafa komið til greiðslu en ekki aðrar hækkanir sem gætu orðið síðar á árinu eins og vegna væntanlegra kjarasamninga.

Í fjórða lagi er lagt til 1,1 milljarðs viðbótarframlag til að standa straum af uppsöfnuðum halla þjónustuliðar Vegagerðarinnar í ársbyrjun 2015 sem fyrst og fremst skýrist af auknum kostnaði við vetrarþjónustu. Það er umhugsunarefni hversu mjög útgjöld til snjómoksturs og vetrarþjónustu hafa farið fram úr áætlun fjárlaga ár eftir ár og þegar saman er tekið hleypur mismunur á því sem áætlað hefur verið hér í fjárlagagerðinni og því sem hefur orðið niðurstaðan á mörgum milljörðum, eingöngu vegna snjómoksturs og vetrarþjónustu. Ég tel mikilvægt að fjárlaganefnd gefi þessum lið sérstakan gaum þegar hann kemur til umfjöllunar í framtíðinni, að við séum ekki í ljósi reynslunnar að vanáætla fyrir þessum þjónustulið og að sama skapi hlýtur að þurfa að huga að því eftir að þessi mál hafa verið tekin til sérstakrar skoðunar hvort við framkvæmd fjárlaga sé fylgt þeim meginlínum sem lagt er upp með. Þar vísa ég til þess að í vetrarþjónustu, eins og annars staðar í stofnanakerfinu, er ekki hægt að útiloka að menn þurfi að aðlaga þjónustustigið að þeim veruleika sem mönnum er búinn við fjárlagagerðina. Það er hinn kaldi veruleiki svo margra stofnana í ríkiskerfinu og hlýtur að eiga við í Vegagerðinni.

Þetta segi ég jafnvel þótt ég geri mér grein fyrir því hversu miklu vetrarþjónustan skiptir íbúa landsins, atvinnustarfsemina víða um hinar dreifðu byggðir, ferðaþjónustufyrirtæki og aðra slíka, en það sama gildir bara svo víða annars staðar, í velferðarþjónustu, heilbrigðismálum og annars staðar.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir 850 millj. kr. hærri framlögum vegna aðgerða stjórnvalda til lækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána á yfirstandandi ári. Meginskýringin á aukinni fjárþörf liggur í því að í endurmetinni áætlun er nú gert ráð fyrir að stærri hluti niðurfærslunnar fari í gegnum gjaldahlið ríkissjóðs í stað tekjuhliðar í formi sérstaks persónuafsláttar eins og forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir 825 millj. kr. aukaframlagi til samræmis við samþykkt ríkisstjórnarinnar um aukin framlög vegna móttöku flóttamanna. Samþykktin gerði ráð fyrir 1 milljarðs framlagi á yfirstandandi ári en við nánari skoðun kom í ljós að gert er ráð fyrir að hluti þeirrar fjárhæðar muni ekki falla til fyrr en á árinu 2016. Er gert ráð fyrir að framlög við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2016 verði aukin til samræmis við það.

Af öðrum stórum útgjaldatilefnum má nefna 716 millj. kr. aukið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til samræmis við endurskoðaða áætlun um skatttekjur ríkissjóðs árið 2015, 705 milljóna umframútgjöldum í málskostnaði opinberra mála, sem skýrist að hluta til af hækkun á málsvarnarlaunum og þóknunum til verjenda, og loks 309 millj. kr. auknum útgjöldum þar sem fallið hefur verið frá fyrirhugaðri lækkun á framlagi vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Aðrar auknar útgjaldaskuldbindingar nema samtals 2,2 milljörðum kr. Á móti vegur helst til lækkunar endurmat á útgjöldum nokkurra kerfislægra útgjaldaliða á yfirstandandi ári sem nemur 940 milljónum. Þannig er gert ráð fyrir að útgjöld barnabóta verði um 600 milljónum lægri en áætlað var í fjárlögum, útgjöld vegna vaxtabóta verði 200 milljónum lægri og útgjöld Ábyrgðasjóðs launa lægri sem nemur 140 milljónum.

Útgjöld sem fjármögnuð eru með ríkistekjum hækka um tæplega 3,5 milljarða í frumvarpinu. Aukningin skýrist nær alfarið af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér og er að nær öllu leyti vegna hærri arðgreiðslna sem áður var vikið að, frá viðskiptabönkunum, sér í lagi frá Landsbankanum.

Endurmetin áætlun á vaxtagjöldum ríkissjóðs gerir ráð fyrir 5,7 milljarða lækkun frá núgildandi fjárlögum. Lækkunin er að mestu leyti vegna lægri vaxtagjalda af innlendum lánum sem má rekja til lægra vaxtastigs á árinu en reiknað var með við gerð fjárlaga. Samkvæmt vinnuspá Hagstofunnar í júní er reiknað með lægri stýrivöxtum árið 2015 sem nemur hálfu prósentustigi frá forsendum fjárlaga. Breytingin hefur áhrif á vaxtagjöld vegna ríkisbréfa, ríkisvíxla, skuldabréfs Seðlabanka Íslands og RIKH 18. Þar að auki hefur stýrivaxtahækkunin sem þó varð haft takmörkuð áhrif á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa vegna mikillar eftirspurnar eftir bréfunum, m.a. frá erlendum fjárfestum.

Þá er rétt að geta þess að þegar hefur verið ráðstafað samtals 5,7 milljörðum af liðnum Ófyrirséð útgjöld á yfirstandandi ári. Munar þar mestu að 5,1 milljarði hefur verið ráðstafað vegna endurmats á launaforsendum fjárlaga vegna kjarasamninga á árunum 2014 og 2015. Vonir standa til að í nóvember verði hægt að fara í heildarendurmat á launakostnaði ríkisaðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði með hliðsjón af gerðardómi og þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á seinni hluta þessa árs. Gert er ráð fyrir að viðeigandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu ef til þess þarf að koma áður en það fer til lokaafgreiðslu á Alþingi. Þá er í frumvarpinu lagt til að flytja 405 millj. kr. af liðnum til stofnana vegna eldgosa norðan Vatnajökuls haustið 2014. Þetta er liðurinn Ófyrirséð útgjöld. Þótt gosinu hafi lokið í febrúar á þessu ári var það mat stjórnvalda að þörf væri á áframhaldandi aðgerðum vegna umbrotanna og vöktun og eftirliti umfram það sem telst hluti af daglegum rekstri og verkefnum stofnana. Ríkisstjórnin samþykkti því í apríl sl. að veita nokkrum stofnunum aukin fjárframlög að upphæð 405 millj. kr. á árinu 2015 vegna áfallins kostnaðar í janúar og febrúar og áætluðum kostnaði í mars og fram í september.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því að á yfirstandandi ári hafa verkföll orðið til þess að skerða þjónustu ýmissa heilbrigðisstofnana sem hefur leitt til þess að biðlistar eftir ýmsum læknisaðgerðum hafi lengst í heilbrigðiskerfinu. Í kjölfar umfjöllunar um málið í ríkisstjórn eru velferðarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið að skoða hvernig unnt yrði að koma við fjölgun aðgerða með fjármögnun og þá er horft til þess að hún væri tengd árangri í styttingu biðlista og hvort ef til vill yrði hægt að hefjast handa að einhverju marki á þessu ári. Í öllu falli væri gert ráð fyrir að taka það upp við afgreiðslu á fjárlagafrumvarpinu fyrir komandi ár. Í ríkisstjórn lagði heilbrigðisráðherra sem sagt fram þá tillögu að ráðist yrði í sérstakt átak til að stytta biðlista og þá var samþykkt að styðja þær áherslur. Í þessu frumvarpi er ekki komin fram útfærð tillaga sem gæti orðið að gagni í þessu efni á árinu 2015 en vegna þeirrar vinnu sem nú stendur yfir milli ráðuneytanna, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og velferðarráðuneytisins, heilbrigðisráðherra, vil ég hafa getið þess hér að tillaga til þess að hefja þetta átak þegar á yfirstandandi ári kann að koma til meðferðar þingsins á málinu.

Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir breytingum á lánsfjármálum ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og sjóða sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins.

Í 1. tölulið er lagt til að almenn lántökuheimild fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs verði 55 milljarðar. Við afgreiðslu fjárlaga var áætlað að lántökur A-hluta ríkissjóðs á þessu ári yrðu 60 milljarðar, allar innan lands. Breyting frá fjárlögum nemur 5 milljörðum til lækkunar og er í samræmi við endurmetna lánsfjáráætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár.

Í 2. tölulið eru lagðar til breytingar á endurlánaheimildum ríkissjóðs til samræmis við horfur fyrir árið í ár. Lögð er til 500 millj. kr. lækkun á endurlánaheimild til Vaðlaheiðarganga hf. sem við það verður 2,1 milljarður í samræmi við endurmetna áætlun.

Í 3. tölulið eru lagðar til breytingar á heimildum til að veita ríkisábyrgð á lántökum fyrirtækja og sjóða sem heimild hafa til lántöku í sérlögum. Um er að ræða eina breytingu sem felst í 18 milljarða kr. lækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar. Fyrirtækið fékk 57 milljarða kr. heimild til lántöku með ríkisábyrgð í fjárlögum. Nú er hins vegar útlit fyrir að endurfjármögnun verði mun minni en áður var áætlað og að lántökur fyrirtækisins í ár verði alls 39 milljarðar kr.

Í 4. tölulið er lagt til að sérstök lántökuheimild til endurfjármögnunar á lánum sem tekin voru til styrkingar á gjaldeyrisvaraforða verði 70 milljarðar kr. Í fjárlögum er heimild fyrir allt að 200 milljarða kr. lántöku í þessu skyni og er breytingin því 130 milljarðar til lækkunar. Fjárlagaheimildin hefur enn ekki verið nýtt en í endurmetinni lánsfjáráætlun er miðað við að endurfjármagna allt að 70 milljarða af þessum skuldum ríkissjóðs ef aðstæður á fjármálamarkaði verða taldar hagstæðar til þess.

Sótt er um þrjár heimildir í frumvarpinu og er gerð grein fyrir þeim í 4. gr. þess. Í fyrsta lagi er sótt um heimild til að kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir embætti ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Í öðru lagi er sótt um heimild til að gerast stofnaðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu og samþykkja að hlutur íslenska ríkisins verði 17,6 milljónir bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé bankans. Í þriðja lagi er lagt til að heimila RÚV ohf. að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um skipulag og sölu á lóðarréttindum við Efstaleiti 1 í Reykjavík, enda verði andvirði hlutar RÚV ohf. nýtt til að lækka skuldir félagsins.

Virðulegur forseti. Rétt er að vekja athygli á því að í frumvarpinu eru ekki tekin inn hugsanleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð í tengslum við losun fjármagnshafta. Slitabú föllnu bankanna hafa samþykkt að greiða stöðugleikaframlög á yfirstandandi ári til að geta gengið til nauðasamninga. Hér á Alþingi í dag var samþykkt frumvarp sem á að greiða fyrir framgangi þeirra fyrirætlana slitabúanna að ljúka nauðasamningagerð en frá og með þeim tíma sem Seðlabankinn staðfestir að fallist sé á undanþágubeiðnir er málið í raun og veru úr höndum þingsins, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og komið í hendur slitabúanna og dómstóla.

Gangi þessi áform slitabúanna eftir þurfa þau ekki að greiða 39% stöðugleikaskatt á næsta ári. Við frágang frumvarpsins lá á hinn bóginn ekki fyrir nægilega heildstætt mat á tillögum slitabúanna og þeim fjármunum og eignum sem kunna að færast til ríkisins frá slitabúunum og að hvaða marki það gerist á þessu ári eða eftir atvikum á næsta ári. Verði fallist á stöðugleikaframlög slitabúanna er ekki hægt að útiloka að gera þurfi viðeigandi breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu áður en það verði tekið til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi en þó má segja að með þeim töfum sem hafa orðið á afgreiðslu þess frumvarps sem ég vísaði hér til og var afgreitt héðan eftir 3. umr. og atkvæðagreiðslu fyrr í kvöld og þar af leiðandi einnig töflum á því að boðað yrði til kröfuhafafunda í einstökum slitabúum hafa aukist mjög líkur á því að það verði ekki fyrr en á næsta ári sem þessi framlög hafi áhrif á ríkisfjármálin.

Þannig má áætla að áhrifin muni frekar snúa að umræðu hér í þinginu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 en síður um það frumvarp sem hér er verið að ræða.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins.