145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[21:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er á endanum í höndum þingsins að taka afstöðu til tillögu af þessum toga. Ég kem inn með frumvarp í þessum búningi eftir samþykkt í ríkisstjórn, sem lýtur að því að við föllumst á að fara í nokkur brýn átaksverkefni í vegamálum, annars vegar vegna þess að ferðamannafjöldinn heldur áfram að aukast og viðkomandi vegir eru undir gríðarlega miklu álagi og það verður ekki beðið mikið lengur með átak í þeim efnum og hins vegar vegna þess að á þeim tíma sem þessi tillaga kom fram í ríkisstjórn lá fyrir að afkomuhorfur á yfirstandandi ári væru töluvert umfram það sem lagt var upp með í fjárlögunum. Þegar þetta tvennt kemur saman tel ég að það sé komin ágætisréttlæting fyrir því að málið sé lagt fyrir þingið í þeim búningi, en þingið á síðasta orðið um þetta.