145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[21:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég hef lagt alveg sérstaka áherslu á að koma ekki með tillögur í fjáraukalagagerðinni sem er ekki raunverulegt tilefni fyrir í þá umræðu. Ég tel að þegar grannt er skoðað hafi það heyrt til algerra undantekninga að ríkisstjórnin hafi ákveðið að senda hingað inn undir fjáraukalagaumræðu einhver útgjaldalagatilefni sem voru fyrir séð eins og lagatextinn segir.

Varðandi áætlanir, m.a. um arðinn, get ég tekið undir það með hv. þingmanni að það skiptir máli að áætlanagerðin sé raunsæ og ábyggileg. Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu gerum við ekki sjálfstæða áætlun um arðgreiðslur heldur köllum eftir áætlun í þeim efnum frá viðkomandi aðilum, í þessu tilviki frá Bankasýslunni, og við setjum inn í fjárlagafrumvarpið þær áætlanir sem okkur berast þaðan. Það er síðan stjórnar bankans, Landsbankans í þessu tilviki, að gera tillögur um arðgreiðslur og þær þarf síðan að samþykkja á hluthafafundi. Það gerist ekki fyrr en eftir samþykkt fjárlaga. Þegar arðgreiðslurnar verða (Forseti hringir.) hærri, eins og á við í þessu tilviki, þá er það í sjálfu sér lúxusvandamál í mínum huga.