145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:40]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með málshefjanda hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Mér finnst þetta einkennileg staða og ég held að engum líði vel með að vikurnar og dagarnir líði án þess að þingið hafi um einhver raunveruleg mál að ræða. Það hafa komið inn einstaka mál frá ríkisstjórnarflokkunum sem þingið hefur fengið að taka á. Þetta kemur ekki frá stað sem er vondur, vonsvikinn eða leiðinlegur. Ég segi bara: Hér er fullt af fólki sem er tilbúið að vinna og það er miður að málin komi svo inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þá séu þau afgreidd á einhverju hundavaði. Þetta er eitthvað sem við verðum að taka alvarlega og breyta. Ég velti fyrir mér hvort það eigi að færa þessa dagsetningu sem ráðuneytin hafa eitthvað framar. Erum við búin að spara okkur til ógagns í ráðuneytunum? Hvað er að gerast? Ég skil þetta ekki sjálf.

Mig langar til að við notum þetta sem hvatningu til okkar allra að hugsa um það hvernig við vinnum hér og hvernig við getum unnið enn þá betur vegna þess að það er engum til sóma að hafa svona marga þingmenn að gera ekki neitt, verð ég að segja, því miður.