145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að taka undir orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur. Í velferðarnefnd hafa, í þá tvo mánuði sem þing hefur verið að störfum, komið inn tvö þingmál frá ríkisstjórninni og þau eru rétt nýkomin til nefndarinnar. Við bíðum fjölda mála í húsnæðismálum sem nefndin þyrfti að komast í að vinna. Það er háalvarlegt ástand á húsnæðismarkaði. Þessi frumvörp hafa verið boðuð. Það eru tvö og hálft ár liðið af kjörtímabilinu og það er ekkert komið inn í nefndina.

Það sem skiptir máli er að við fáum mál inn tímanlega svo að við getum vandað vinnu við þau þannig að lögin sem við setjum hér á Alþingi séu sem best úr garði gerð. Ég hvet forseta til að knýja á um það við ráðherrana að þeir hraði vinnu á þeim frumvörpum sem þeir hyggjast fá samþykkt fyrir jól þannig að við fáum þau hingað inn í þingið og gefist einhver tími til að vinna í þeim þannig að niðurstaðan verði ekki ólög fremur en lög.