145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

markmið Íslendinga í loftslagsmálum.

[13:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er fram undan stór alþjóðleg ráðstefna í París, COP 21, þar sem fjalla á um bindandi viðmið fyrir þjóðir heims um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna þeirrar miklu vár sem óbreytt ástand skapar fyrir mannkyn allt. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur komið fram að ríkisstjórnin hafi ákveðið að taka þátt, ásamt með Evrópusambandinu og Noregi, í skuldbindingum um að draga saman losun um 40%. Það er jákvætt að heyra það frumkvæði, sérstaklega í ljósi þess að við höfum nú hingað til fengið að heyra það frá hæstv. forsætisráðherra að í loftslagsbreytingum og þeim miklu hörmungum sem þær skapa fyrir þjóðir heims felist mikil tækifæri fyrir Íslendinga. Satt að segja var það mikið fagnaðarefni að heyra Frakklandsforseta, François Hollande, kveða mjög skýrt að orði í nýlegri heimsókn til Íslands um það að auðvitað er ekki hægt að líta svo á að loftlagsbreytingar feli í sér tækifæri fyrir nokkra þjóð eða nokkurn mann.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að svör hafa ekki verið auðfundin, hvernig eigi að mæta þessum metnaðarfullu markmiðum, sérstaklega í ljósi þess að í losunarbókhaldinu eins og það stendur í dag er ekki gert ráð fyrir auknum fjölda ferðamanna og þar er ekki heldur reiknað með þremur nýjum kísilverum sem eru nú í undirbúningi eða á teikniborðinu. Ef allt þetta verður að veruleika má búast við að við þurfum að draga saman um mun meira en 40% til að mæta markmiðunum fyrir 2030. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi áætlunar að þessu leyti. Mun hún koma með hana inn í þingið og reyna að skapa um hana víðtæka samstöðu? Því það þarf á því að halda ef við ætlum að setja okkur metnaðarfull markmið sem eiga að nást eftir svo langan tíma.