145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

markmið Íslendinga í loftslagsmálum.

[13:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að von sé á því að við fáum að sjá metnaðarfulla áætlun. Ég vil hvetja hana til dáða í þeim efnum og segja henni að hún þarf ekkert að óttast því að við munum standa að baki henni í metnaðarfullum tillögum til að Ísland geti verið í fremstu röð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við eigum mikið undir því sem þjóð að allar þjóðir heims leggi þar af mörkum. Ísland getur ekki skorast þar úr leik.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í það. Má ekki treysta því að í þeim tillögum sem von er á í næstu viku verði þá tekið utan um vandann eins og hann lítur út í heild sinni og umfang losunarinnar af Íslands hálfu eins og það lítur út í heild sinni og þar með reiknað með útblæstri frá þeim nýju verksmiðjum sem ég nefndi áðan og ekki hafa þegar tekið til starfa, þannig að við séum ekki að leggja fram tillögur um 40% samdrátt frá því sem er í dag heldur 40% samdrátt frá því sem verða mun á næstu árum?