145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

NPA-þjónusta við fatlað fólk.

[14:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir fyrirspurnina. Við vorum að vonast til, varðandi heildarendurrmatið á yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks, að niðurstaða um tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga mundi liggja fyrir. Það liggur hins vegar fyrir að svo verður ekki þannig að ég mun á næstu dögum fá skýrsluna frá endurmatsnefndinni þar sem rammað verður af hver er hinn aukni kostnaður sem hefur raunverulega orðið á þessu tímabili frá því að málaflokkurinn fór yfir til sveitarfélaganna.

Eins og hv. þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni þá er NPA tilraunaverkefni og settir voru sérstakir fjármunir í það. Tilraunaverkefnið fór síðan hægar af stað en vonir stóðu til og þar af leiðandi tók þingið ákvörðun um að framlengja tilraunaverkefnið. Við vorum að vonast til þess að svigrúm væri innan fjárlaganna til að bæta við samningum, en hins vegar hefur komið fram krafa frá sveitarfélögunum um að auka hlutdeild ríkisins í tilraunaverkefninu.

Nú hefur það verið þannig að ríkið hefur borgað 20% og komið hefur krafa um að sú kostnaðarþátttaka fari upp í 30%. Það hefur jafnframt verið talað um að það sé fyrir fram ákveðin upphæð, föst upphæð, sem sveitarfélögin setja inn í verkefnið, óháð því hvort fram undan séu launahækkanir til starfsmanna sem sinna þessum verkefnum.

Ég á von á því á næstu dögum að setjast niður með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fara yfir þessi ágreiningsmál. Ég vil jafnframt minna á að fjárlagafrumvarpið er í meðferð (Forseti hringir.) þingsins, er í fjárlaganefnd, þannig að ekki liggur fyrir niðurstaða fyrr en Alþingi afgreiðir það um hvernig þessu verður háttað varðandi næsta ár.