145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

þekking á einkennum ofbeldis.

[14:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Óttarr Proppé í fyrirspurn minni til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég held að allir séu mjög slegnir eftir umfjöllun Kastljóss í síðustu viku um ofbeldi sem konur með þroskahömlun voru beittar á sumardvalarstað fatlaðs fólks. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa séð til þess að komið hefur verið á landssamráði um aðgerðir gegn ofbeldi. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að leiða saman vinnu þessara þriggja hæstv. ráðherra; menntamálaráðherra, innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra, um þessi mál. Erlendar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru líklegri til að vera beittar ofbeldi en aðrar konur og til eru nýjar íslenskar rannsóknir sem sýna að það sama á við hér á landi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í tilefni af því að þessi mál eru nú komin til umræðu, bæði í samfélaginu og hér á þingi: Telur hún að næg þekking sé fyrir hendi hjá stofnunum um ofbeldi sem fatlað fólk, sérstaklega fatlaðar konur, á á hættu að verða beitt? Hvernig er hægt að auka þekkingu þeirra sem starfa með fötluðu fólki á þessum málum? Hyggst hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að starfsfólk fái aukna fræðslu til þess að þekkja og koma auga á ofbeldi ef um það er að ræða, t.d. á stofnunum og öðrum stöðum þar sem fatlað fólk dvelur eða kemur saman?