145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

þekking á einkennum ofbeldis.

[14:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir fyrirspurnina. Í samstarfsyfirlýsingunni sem ég nefndi, um landssamráð um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, er einmitt talað um það mikilvæga atriði að við vinnum saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Rannsóknir hafa sýnt fram á niðurbrjótandi áhrif ofbeldis og teljum við mikilvægt að auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi. Við teljum mikilvægt að bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.

Ég tel að það sé að verða mikil vitundarvakning í samfélaginu hvað það varðar. Réttindagæslan, sem er tiltölulega nýlegt úrræði, var stórt skref fram á við. Ég heyri frá mínu fólki þar að það telur að mikil vitundarvakning hafi orðið í þeim efnum meðal þeirra sem vinna með og sinna fötluðu fólki, og eins hjá fötluðu fólki, aðstandendum þess og í samfélaginu í heild.

Ég held að ég geti þó fullyrt að það er alls ekki næg þekking á þessum málum. Það hef ég til dæmis séð í erlendum rannsóknum sem ég hef verið að kynna mér. Þar er bent á að það sé alls ekki næg þekking á ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, þannig að við þurfum aukna fræðslu. Ég vil líka benda á annað, sem ég held að hafi komið fram til dæmis hjá formanni allsherjar- og menntamálanefndar, (Forseti hringir.) þ.e. að við þurfum fjármagn, t.d. lögreglan sem kemur að rannsókn þessara mála og allt stuðningskerfið, til þess að afla þessarar þekkingar og til að geta sinnt málaflokknum með nægilega góðum hætti.