145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

þekking á einkennum ofbeldis.

[14:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmann enn á ný fyrir ræðuna. Þetta er það sem ég hef talað um að við í samfélaginu séum sífellt að gera okkur betur grein fyrir. Eins og hv. þingmaður nefndi eru ákveðnir hópar, ekki síst fatlað fólk, berskjaldaðri og varnarlausari en aðrir. Menn hafa verið að ná betur utan um þau mál, en það skiptir verulega miklu máli að koma þeirri þekkingu inn í verkferla okkar, þ.e. hvernig við nálgumst rannsókn mála. Það er það sem réttindagæslan hefur verið að vinna mjög markvisst að.

Við sjáum nú að teknir hafa verið upp breyttir verkferlar hjá lögreglunni á Suðurlandi varðandi rannsókn mála. Ég veit að það er mikill áhugi innan lögreglunnar á að taka upp þá verkferla út um allt land og læra af því. Við höfum líka verið að skoða það sem snýr að ofbeldi gagnvart fötluðum börnum og hvernig hægt er að tryggja það betur að Barnahús geti sinnt þeim (Forseti hringir.) og hugað sem best að þörfum þeirra. Við verðum að halda áfram að hlusta eftir gagnrýni og ábendingum (Forseti hringir.) um hvað við getum gert betur.