145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:29]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Ég vil þakka ráðherra kærlega fyrir að koma til þessarar umræðu við mig með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni. Við þingmenn vil ég segja að það eru margar ástæður fyrir okkur til að velta fyrir okkur gerð búvörusamninga. Þótt beinar greiðslur úr ríkissjóði til bænda vegna búvöruframleiðslunnar hafi farið mjög lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, eða úr 5 í 1% á 20 árum, er samt sem áður um það að ræða að yfir 10 milljarðar af ríkisfé renna til bænda auk frekari kostnaðar sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar. Það er því skylda þingmanna að fylgjast vel með gerð nýrra búvörusamninga og hvernig að þeim verður best staðið. Það er ekki skynsamlegt að fela ráðherra og hagsmunasamtökunum einum að gera samning og koma svo með hann fullbúinn í þingið og fara þá að hafa skoðanir og taka til máls. Miklu betra er að fram fari umræða um málið þar sem það er rætt frá öllum hliðum, öll sjónarmið reifuð, allir hagsmunir eru uppi á borðum og reynsla okkar og eigin saga og annarra þjóða höfð til hliðsjónar.

Meðal þeirra ótal sjónarmiða sem liggja til grundvallar er til dæmis neytendasjónarmið, að nægt framboð á ódýrri gæðavöru sé fyrir neytendur. Byggasjónarmið, að við uppbyggingu greinarinnar sé leitast við að efla byggð eða dreifa byggð með ákveðnum hætti, eða ekki. Ef landbúnaðurinn á ekki að koma nálægt byggðaþróun þarf að fjalla um það annars staðar og létta því af honum. Hámarkshagkvæmni, arðbær rekstur og góð lífskjör bænda, það er sjónarmið. Nýliðun, að það geti átt sér stað nýliðun og endurnýjun í stétt bænda. Fæðuöryggi, matvælaöryggi og gæðasjónarmið hvers konar. Dýravernd og umhyggja fyrir dýrum. Varðveisla og ræktun dýrastofna, að á Íslandi séu sérstakir dýrastofnar og taka þurfi sérstakt tillit til þeirra í samningagerð. Og hvaða lyf, hvaða fóður, hvaða aðkeypt aðföng við ætlum að leyfa að séu notuð í landbúnaði á Íslandi. Umhverfissjónarmið, landverndarsjónarmið, landnýtingarsjónarmið, allt eru þetta undirliggjandi þættir. Menningarbundin og félagsleg sjónarmið. Það heyrist að landbúnaðinum fylgi ákveðin menning, ákveðin félagsgerð sem beri að varðveita og huga að.

Það má þá öllum vera ljóst að mörg þessara sjónarmiða eru ósamrýmanleg, þ.e. þau rekast illa saman í flokk. Ef við göngum mjög langt í hagkvæmnikröfunni, hvernig á þá að sinna öllum hinum kröfunum? Dýravelferð kostar til dæmis, það kostar að varðveita hreinleikann. Gæði, hreinleiki, dýravernd, byggðasjónarmið og landverndarsjónarmið rekast þannig illa með hagkvæmnissjónarmiðum.

Eitt það fyrsta sem skynsamlegt kann að vera í umræðu sem þessari er að huga vandlega að því hvernig tekist hefur til hjá okkur, hvaða markmið hafi verið í gildandi samningum, hvernig hafi gengið að ná þeim. Þess vegna spyr ég í formlegri spurningu minni til ráðherra: Hefur það verið mælt með kerfisbundnum og vísindalegum hætti? Eigum við mikið af gögnum og skýrslum um það hvernig gengur að ná þessum markmiðum?

Mér finnst nefnilega áberandi í umræðunni úti um land að þegar maður byrjar að tala um þetta fara menn alltaf að ræða um einstakar greiðsluútfærslur sem eru í gildi í dag eða hafa verið í gildi og ræða um breytingar á því, oft smávægilegar, í staðinn fyrir að horfa á heildarmyndina.

Í núgildandi samningum má merkja töluverðan blæbrigðamun á annars vegar mjólkursamningi og hins vegar sauðfjársamningi. Í mjólkinni erum við meira að tala um bisness, hagkvæmni, enda hefur mikið gerst þar, búum hefur fækkað úr um 1.500 búum í innan við 700 á innan við 20 árum. Þannig virðist það ætla að ganga áfram.

Sauðfjársamningurinn er með markmið um sjálfbærni, umhverfisvernd og byggðasjónarmið og sauðfjárræktin hefur þróast með ólíkum hætti þar sem fjölbreytni í búastærð er miklu meiri, tengsl við aðrar atvinnugreinar eru öðruvísi og meiri og miklu fleiri búendur vinna utan heimilis en kannski er í kúabúarekstri, sem hefur þróast þar sem stækkunaráhrifin ganga mjög hratt fram.

Ég vil spyrja ráðherra um afstöðu til nýrra samninga: Verður frjáls sala greiðslumarks áfram við lýði? Nú þegar er talið að 30% af því sem borgað er sé farið út úr greininni. Það fer núna til bænda sem eru hættir búskap og fjármálastofnana. Viljum við að þær greiðslur sem við leggjum í þetta fari í auknum mæli til fjármálastofnana? Verður greitt fyrir svipaða þætti í dag eða munum við sjá breytingar, t.d. greitt út á ræktun lands, (Forseti hringir.) búsetu, gripi eða annað slíkt?

Ég hef heyrt ráðherrann mæla fyrir því að breytingar verði gerðar. Ég vil hvetja ráðherra til að gera okkur í þinginu grein fyrir þeim breytingarhugmyndum sem hann hefur.