145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:40]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu landbúnaðar- og búvörusamningar. Ég tel að þessi umræða sé þörf. Ég vil þá velta upp þeirri spurningu hvar möguleikar íslensks landbúnaðar liggi. Liggja þeir áfram í stækkun búa? Eða í þeim möguleikum sem bændur ef til vill hafa til að auka verðmæti framleiðslu sinnar? Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mjög skýra sýn á þá möguleika sem landbúnaðurinn í þessu landi á. Þeir liggja fyrst og fremst í gæðum, rekjanleika, hreinleika, frumleika og beinum tengslum bænda við kaupendur; þar sem varan er framleidd með sjálfbærni og dýravelferð í fyrirrúmi.

Ég skynja mikinn og aukinn áhuga hjá bændum á að feta sig í þessa átt. Víða eru komnar vinnslur sem hafa leyfi til að vinna og selja beint landbúnaðarvörur. Aukinn ferðamannaiðnaður eykur enn á þessa möguleika. Lítið sláturhús á Seglbúðum í Skaftafellssýslu hefur fengið leyfi til slátrunar, en það ferli sem fara þarf til að fá slíkt leyfi er of þungt og þarf að finna leiðir til að auðvelda áhugasömum að opna sláturhús.

Ef fer sem horfir, að búin stækka og fjársterkir aðilar kaupa í auknum mæli jarðir og hefja mikla framleiðslu, fjarlægist landbúnaðurinn þann velvilja sem hann réttilega hefur átt með þjóðinni og er mjög verðmætur.