145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið var tilkynnt um niðurstöður úr samningaviðræðum, sem hafa staðið lengi yfir, við Evrópusambandið um tollfrelsi á viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Það vekur athygli að bæði hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra hafa hins vegar sagt að þeir samningar eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en búið verði að ganga frá búvörusamningum og með því gefinn ádráttur um að þeir séu með einhverjum hætti skiptimynt í þeim búvörusamningum sem fram undan eru.

Ég velti því fyrir mér, í ljósi þess að við höfum ekki fengið að sjá hér á spil og heyrðum ekkert frá hæstv. ráðherra um samningsmarkmið ríkisins í þessum búvörusamningum, með hvaða hætti er verið að halda á samningum að þessu leyti. Hvaða hagsmuna er verið að gæta? Eru það hagsmunir bænda? Eru það hagsmunir af nýliðun, eða er það varðstaða um óbreytt ástand sem öllu ræður? Ég efast um að í nokkrum öðrum málaflokki væri það þannig að engin samningsmarkmið væru rædd opinberlega í stórum samningum sem fram undan væru af hálfu ríkisins.

Ég bendi líka á að fyrir rúmu ári var óskað eftir tilnefningum fulltrúa allra flokka í nefnd um endurskoðun búvörulaga. Ég er þar fulltrúi Samfylkingarinnar tilnefndur. Sú nefnd hefur aldrei verið kölluð saman. Ég hlýt auðvitað að kalla eftir því að hæstv. ráðherra sýni á spilin hvað varðar framtíðarstefnu í landbúnaðarmálum og treysti sér til að ræða hana þvert á flokka.

Stóra markmiðið núna ætti auðvitað að vera að auðvelda bændum að búa jafnt við afkomuöryggi, sem og aukið atvinnufrelsi, möguleika á að framleiða það sem þeir vilja og að sækja aukin verðmæti á opna markaði. Áhersla þjóðarinnar og ríkisins ætti að vera að opna landbúnaðinn upp með þeim hætti. En því miður virðist hann allt of fastur í varðstöðu um fámennar vel tengdar (Forseti hringir.) afurðaklíkur sem öllu virðast ráða og geta haldið þessari atvinnugrein í helgreipum, algjörlega að ósekju.