145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[14:56]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu, hún er mikilvæg, og ég vil taka sérstaklega undir með þeim þingmönnum sem hafa lagt á það áherslu að mikilvægt sé að taka opna umræðu og opna ferlið og það þurfi aðkomu fleiri, ekki síst neytenda.

Ég er sjálfur mikill áhugamaður um landbúnað eða landbúnaðarafurðir og íslenskur landbúnaður er vissulega besti landbúnaður á Íslandi enda sá eini, en í heimssamhengi þá er hann afskaplega lítill. Ég vil meina að það séu bullandi möguleikar í íslenskum landbúnaði, ekki bara hér á landi heldur ekki síður í útflutningi en til þess þarf sérhæfingu. Tilhneigingin á Íslandi hefur verið sú að landbúnaðurinn er alltaf að verða einhæfari og einhæfari. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að hann er svona framleiðslumiðaður. Þetta er vissulega „trend“ sem við höfum séð í flestum löndum, t.d. öllum löndum á norðurhjaranum á Norðurlöndum, að búum fækkar en þau stækka og framleiðslan hefur tilhneigingu til að verða einhæfari. Við höfum séð þetta hér að ákveðnir aðilar í afurðastöðvum o.s.frv. hafa orðið gríðarlega sterkir. Við fundum það í þingflokki Bjartrar framtíðar þegar við heimsóttum mjólkurbúið Örnu í Bolungarvík um daginn að það er næstum því prómill af íslenskri landbúnaðarframleiðslu sem fer í fjölbreyttari afurðaframleiðslu, fer beint frá bændum o.s.frv. Jafnvel þeir sem eru mikilvirkastir í þeirri framleiðslu framleiða úr litlum hluta af sinni framleiðslu.

Svo verð ég að minnast á það sem sérstakur áhugamaður um íslensku geitina að geitaafurðir virðast vera fyrir utan íslenska landbúnaðarkerfið að mörgu leyti. (Forseti hringir.) Búvörusamningarnir eru mjög miðaðir að stóru framleiðslugreinunum og ég held að með víðari aðkomu gætum við séð meiri fjölbreytni í landbúnaðinum öllum.