145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

landbúnaður og búvörusamningur.

[15:00]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka öllum sem hafa tekið hér til máls. Það eru allir í spreng, þetta er enginn tími sem við höfum fyrir þetta. Það er alveg ljóst að við getum tekið langa umræðu um sauðfjársamninginn einn og sér, um mjólkina eina og sér, og ég nefndi ekki garðyrkjubændur. Það er ekki af virðingarleysi við þá, það er bara ekki tími til, við sjáum að þetta er enginn tími. Svo þurfum við sérstakan tíma fyrir byggðaumræðuna sem að sjálfsögðu er fléttuð inn í þetta sama.

Þá er nú Steingrímur farinn úr salnum. Ég ætlaði að segja honum að mjólkin væri farin, hann þarf ekki að hugsa svo mikið um það. Hún er farin í bisnessinn, þar er ekki fjölskyldubúastærð lengur og fjármagnið er orðið stærsti þátturinn.

Brynhildur veltir fyrir sér aðkomu neytenda og enn fremur byggðasjónarmiðum og þetta er umræða sem þarf að taka, sérstaklega um byggðasjónarmiðin. Á landbúnaðurinn að bera ábyrgð á byggðinni eða ætlum við að fást við byggðamálin sérstaklega? Haraldur veltir þarna upp …(Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmann um að nefna hv. þingmenn með fullu nafni.)

Fyrirgefðu. Hv. þm. Haraldur Benediktsson nefnir áhugaverðan punkt þegar hann veltir fyrir sér: Ef við vörðum 4% af landsframleiðslu í þetta áður, 1% núna, hvar eru þeir peningar? Ef á þeim tíma var litið á þá sem byggðaaðgerð til dæmis, þá höfum við stórlega dregið úr því án þess að hafa tekið um það meðvitaða ákvörðun, eða hvað? Við höfum ekki hugmynd um það. Þannig að það er fullt af þáttum sem þarf að ræða. Jarðalögin hafa ekki verið nefnd hérna. Ég studdi þau á sínum tíma. Við fórum í mjög frjálsleg jarðalög. Kannski gerðum við mistök þar. Kannski þurfum við að binda jarðirnar meira við búskap og landnotkun. Það er eitt sjónarmið sem við eigum algerlega eftir að ræða líka og þarf að taka mikinn tíma til.

Ég vil að endingu segja að í nýútkominni skýrslu Háskólans á Akureyri er verið að velta fyrir sér útflutningi á sauðfjárafurðum. Ég er búinn að fylgjast með þeirri umræðu í tuttugu ár og mér finnst þeir svolítið djarfir í að ýta undir að þar sé bjart eina ferðina enn. Ég heyri það ekki á afurðastöðunum að þær séu að raka saman fé (Forseti hringir.) á útflutningi sauðfjárafurða. En að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu.