145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst að ég gæti að mörgu leyti endurtekið það sem ég sagði í fyrra í umræðunni þá um fjáraukalög. Við fáum nú aftur fjáraukalög þar sem ótal liðir eiga ekki heima þar sem þeir eru ekki ófyrirséðir, óvæntir. Þegar við hófum 1. umr. sagði hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum við mig að málið væri komið til þingsins sem tæki síðan ákvörðun. Ég upplifði þetta svolítið eins og hér væru ýmsir liðir sem menn létu reyna á en síðan væri það Alþingi, löggjafarvaldið, sem tæki ákvörðun. Ég vona að það standi í lappirnar í þessu máli því að mér finnst ekki hægt að tala um aga og ábyrgð í einu orði og samþykkja síðan til dæmis fjárveitingu til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í hinu. Það eru ekki ásættanleg vinnubrögð. Allt tal um ábyrgð og slíkt í tengslum við fjármál verður bara hjóm eitt.

Það er eins og stjórnvöld vanáætli allt of oft fjárveitingar. Þá er ég ekki bara að tala um núverandi stjórnvöld því að þetta hefur viðgengist í gegnum tíðina þó að það hafi minnkað mikið eftir hrun, að einhverju leyti vegna þess að það voru hreinlega ekki til peningar. Þetta vekur upp spurningar og er áhyggjuefni vegna þess að við erum að vinna lög um opinber fjármál sem miða einmitt að því að vera með góða áætlanagerð og plana fram í tímann. Ef við getum ekki einu sinni planað hálft ár fram í tímann á lið eins og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er okkur eiginlega ekki viðbjargandi.

Ég vil benda staðgengli hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. menntamálaráðherra, á að lesa nefndarálit minni hlutans frá því í fyrra og hittiðfyrra og taka mark á því sem við erum að segja því að við hittum greinilega naglann á höfuðið. Hvað sjáum við í fjárlögum ársins 2016? Voru ekki tæpar 150 milljónir settar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða? Þetta er eins og lélegur brandari. Afsakið að ég skuli vera hneyksluð hérna en mér finnst þetta ekki boðlegt.

Hér eru ýmsir liðir sem eru skiljanlegir. Það varð eldgos og eitt og annað hefur gerst sem ekki var hægt að sjá fyrir. En það eru allt of margir liðir sem eiga ekkert erindi í fjáraukalög. Ég bíð spennt eftir atkvæðagreiðslunni þar sem ég ætla að sjá hvort meiri hlutinn stendur í lappirnar í þessu máli og hvort hann mun t.d. samþykkja liðinn sem snýr að Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það verður fróðlegt að sjá það.

Það eru tveir liðir sem vekja athygli mína, sem eru Læknavaktin og heilsugæslustöðin í Salahverfi í Kópavogi þar sem er verið að bæta við fjármunum vegna þess að einhver viðmið í þjónustusamningi stóðust ekki, það komu fleiri sjúklingar en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Það vekur upp spurningar um heilsugæslustöðina á Akureyri sem var líka með þjónustusamning við ríkið en Akureyrarbær greiddi með heilsugæslunni á hverju ári og fékk ekki neinar viðbætur. Þetta er eitthvað sem ég ætla að skoða nánar. Þetta er bara 1. umr. og við eigum eftir að kalla inn gesti.

Það er einnig liður sem er lækniskostnaður sem við höfum gagnrýnt að hafi ekki verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta var milljarður í fyrra og er 1,1 milljarður í ár. Í fjárlögum var talað um að setja reglugerð. Síðan hefur verið einhver pólitísk ákvörðun að gera það ekki og þá vantar milljarð upp á. Í fjárlögum fyrir árið 2016 er held ég búið að kippa þessu í liðinn en tvö ár í röð eru þessi vinnubrögð viðhöfð.

Mér finnst óvenjumargir liðir vera hjá innanríkisráðuneytinu. Þar eru vissulega margir málaflokkar flóknir og kannski ekki alltaf hægt að sjá fyrir með góðu móti. Mér finnst þetta líka vera vísbending um að við séum að vanáætla. Kannski er alltaf hugmyndin að reyna að hafa fjárlögin sem lægst til að geta sýnt fram á hallalaus fjárlög þegar þau eru lögð fram og bæta svo við eftir á þegar menn sjá að kannski gengur betur en menn ætluðu. Ég held að það væri betra ef menn mundu frekar áætla aðeins of mikið í stað þess að vera alltaf að bæta við eftir á.

Við hljótum að spyrja okkur hvort við höfum einfaldlega ekki tækin til þess að áætla nógu vel eða upplýsingarnar sem við þurfum eða hvað sé í gangi. Þetta er ekki nógu gott svo að það sé sagt.

Ég ætla ekki að fara að tína til einstaka liði. Ég geri ráð fyrir að 2. umr. verði aðeins viðameiri og við verðum þá komin með svör við ýmsum spurningum. Ég held að ég ætli ekki að lengja þessa umræðu. Þetta eru gamlir draugar sem mér finnst við enn og aftur vera að ræða. Mér finnst það sorglegt.