145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns þar sem hann fór yfir ýmislegt sem kom fram í fjáraukalagafrumvarpinu en fór hins vegar aftur í að ræða hugmynd hans um hinn svokallaða samfélagsbanka. Ég verð að viðurkenna að mér finnst sú hugmynd vægast sagt skrýtin þó svo að ásetningurinn sé örugglega góður. Þetta snýst um það að ríkið eigi að eiga banka sem eigi að vera betri en allir hinir bankarnir og veita virka samkeppni.

Það eru nokkrar spurningar sem vakna af því að ég hef ekki haft tækifæri til að spyrja hv. þingmann. Í fyrsta lagi spyr ég: Hefur hv. þingmaður kannað hvort það standist samkeppnislög að ganga fram með þessum hætti? Í öðru lagi: Ef ég man rétt þá er þetta hugmyndin með Íbúðalánasjóði sem hefur kostað okkur skattgreiðendur sem samsvarar einum nýjum Landspítala í beinum útlögðum kostnaði. Vonandi sjáum við fyrir endann á því en það er ekki alveg sjálfgefið. Þá er spurning númer tvö hvort hv. þingmaður telji ekki að þau spor hræði. Og í þriðja lagi: Ég segi fyrir sjálfan mig að það er margt sem mér fyndist að mætti vera betra á Íslandi þegar kemur að atvinnustarfsemi, samkeppni mætti vissulega vera meiri og einnig ýmis þjónusta sem er okkur lífsnauðsynleg. Telur hv. þingmaður að við ættum að fara í ríkisrekstur á fleiri sviðum til að veita virka samkeppni en bara í bankastarfsemi?