145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:59]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkið lagði Landsbankanum að sjálfsögðu til fé, bæði lán og eigið fé, og ég veit ekki betur en að á þessum lánum hafi verið vextir, markaðsvextir, og að af hlutafénu hafi verið greiddur arður. Það er því ekki neinn ríkisstyrkur í því.

Varðandi Íbúðalánasjóð þá er vandamálið, eins og hv. þingmanni er kunnugt um, að hann þáði ráð einkafyrirtækja um hvernig hann ætti að fjármagna sig. Þau ráðlögðu honum að gefa út óuppgreiðanleg skuldabréf og hann þáði það ráð. Þannig gæti hann jafnvel fengið ódýrari fjármögnun. Þetta er stóra vandamálið, þetta er vandamál Íbúðalánasjóðs í hnotskurn, að hann getur ekki greitt upp sína fjármögnun þegar viðskiptavinir hans kjósa að greiða upp lánin sem þeir fengu hjá honum. Þar hefur lítið að segja að Íbúðalánasjóður skuli vera ríkisfyrirtæki.

Síðan er það spurningin: Hvað gerir bankana öðruvísi en önnur fyrirtæki? Hvers vegna er ég hér að tala um að kannski sé skynsamlegt að eiga einn stóran banka? Bankaumhverfið á Íslandi er þannig að hér eru þrír bankar sem eru of stórir til að falla. Landsbankinn er einn af þeim og stærstur þeirra allra, og óhjákvæmilega er ríkið í bakábyrgð fyrir þessum banka. Samfélagið okkar mundi ekki þola að þessi banki hætti starfsemi. Það þolir það hins vegar að einhver prentsmiðja hætti starfsemi, hún fer bara í hendur nýrra eigenda. Það sama á við um olíufélag eða annað slíkt, jafnvel þó að það sé stórfyrirtæki getur einkamarkaðurinn brugðist við því. En þegar banki fer á hausinn eða lendir í vanda þá stoppar kannski peningakerfið okkar. Þá getum við ekki lengur átt viðskipti í öllum hinum fyrirtækjunum. Við getum ekki keypt og selt vörur eða jafnvel farið út í apótek að kaupa lyf. Þess vegna mun ríkið alltaf koma inn og bjarga bönkunum, hvort sem þeir eru einkareknir eða í ríkiseigu.

Með því að einkavæða banka þá erum við að einkavæða hagnaðinn og ríkisvæða tapið nema menn gæti sín þeim mun betur.