145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér finnst þetta afar áhugavert. Ef Ísland er nú að fara að eignast einn banka til þá tökum við umræðu um hvernig við viljum hafa bankakerfið á Íslandi og þá finnst mér afar líklegt að hugmyndir hv. þingmanns verði skoðaðar og við lítum þá til nágrannalanda, t.d. Norðurlanda þar sem slíkir bankar eru starfræktir með ágætum árangri, að mér skilst.

Hv. þingmaður nefnir hér tölu banka og hefur gagnrýnt að við ætlum að selja hluti í Landsbankanum. Ef ég man rétt er í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir 35 milljörðum sem ættu að koma inn til að greiða niður skuldir ríkissjóðs við sölu á hlut — ég man ekki hversu stór hluturinn var. Telur hv. þingmaður að það séu einhverjar líkur á því að sá hlutur sem áætlað var að selja í Landsbankanum seljist á nafnvirði, eins og áætlað var í fjárlögum?

Er hv. þingmanni kunnugt um á hvað hlutir í bönkum fara? Mér skilst að bankar séu bara undir nafnvirði í löndunum í kringum okkur. Eru einhverjar líkur á því að hlutir í íslenskum bönkum séu líklegir til að fara á hærra verði eða telur hv. þingmaður að við gætum hugsanlega kastað inn einhverjum söluhagnaði af hlut í bönkum nú um stundir?