145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er svo sem af ýmsu að taka til að spyrja hann út í. Hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar að þetta væri eins og Groundhog day. Ég verð að segja að tilfinning mín er einmitt sú þegar ég les fjáraukalagafrumvarpið, því að þarna eru bara gamlir draugar og enn er verið að nýta fjáraukalögin til að stofna til nýrra verkefna, verkefna sem öllum var ljóst að þyrfti að setja peninga í.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um slíka áætlanagerð svo að ég taki bara beint dæmi, áætlun í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem verið er að bregðast við með 850 millj. kr. framlagi. Hvað finnst hv. þingmanni um slíka áætlanagerð og að hún endurtaki sig aftur og aftur? Telur hv. þingmaður að það sé eitthvað líklegra að hæstv. ríkisstjórn fari eftir nýjum lögum um opinber fjármál fyrst hún getur ekki farið eftir þessum lögum um fjárreiður?