145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist hitt og þetta, það breytir engu að þetta er nákvæmlega það sama sem menn eru að ræða, ég þekki það ágætlega því að ég tók þá umræðu á sínum tíma. Ég þekki líka ágætlega afstöðu hv. stjórnarandstöðu á þeim tíma þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fóru í þær breytingar sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Og betra hefði verið að gagnrýnni hugsun hefði verið á rekstur Íbúðalánasjóðs á þeim tíma því að nákvæmlega sömu hugmyndir eru á ferðinni, það eru nákvæmlega sömu góðu markmiðin sem menn höfðu. Þegar menn voru að fara í breytingarnar á þeim tíma, sem ekki margir vöruðu við, þá var það svo sannarlega ekki hv. stjórnarandstaða á þeim tíma sem var með varnaðarorðin. Reyndar var það hv. stjórnarandstaða sem skammaði þann sem hér stendur hvað eftir annað fyrir það að voga sér að ræða með gagnrýnum hætti um Íbúðalánasjóð. Ástæðan fyrir því að þetta (Forseti hringir.) tap er allt saman hjá ríkinu er vegna þess að þetta var ríkisbanki.