145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óumdeilt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er búinn að vera mun lengur hér á svæðinu en ég. Það skal fúslega viðurkennt. Ég held að það hafi verið svart/hvítt sjónvarp þegar hv. þingmaður var fyrst kosinn, í það minnsta man ég eftir hv. þingmanni í svart/hvítu sjónvarpi í íþróttunum í gamla daga.

Hvað sem því líður, deilan sem var tekin um Íbúðalánasjóð var þessi. Sú leið var farin því miður að Íbúðalánasjóður átti að vera alls staðar, ekki bara þar sem voru markaðsbrestir. Á Norðurlöndunum einbeittu menn sér að því að taka sérstaklega á því þar sem var markaðsbrestur. Við fórum því miður ekki þá leið. Menn vildu halda af einhverjum ástæðum markaðshlutdeild ríkissjóðs með sömu rökum og hér eru til að veita mönnum betri kjör o.s.frv. Þetta er alveg sama tal, en menn ætluðu bara að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Þess vegna mátti Fjármálaeftirlitið ekki hafa eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég þekki þessa umræðu mjög vel því að ég tók hana á þeim tíma. (Forseti hringir.) Þess vegna, þegar áfallið kom, lenti það allt saman á ríkinu vegna þess að við skattgreiðendur áttum bankann og bárum fulla ábyrgð á honum.