145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:42]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta. Ég er ekki alveg sáttur við þessa áætlunargerð. Ég held að við eigum að reyna að hafa þetta eins gott og við mögulega getum. Ef Bankasýslunni hefur ár eftir ár mistekist að komast að skynsamlegri niðurstöðu þarf ráðuneytið að sjálfsögðu að gera eitthvað í málinu, yfirfara þetta eða fá annað álit. Það blasir alveg við óbreyttum þingmanni að þetta er allt rangt og er búið að vera lengi. Ég held að við ættum að leiðrétta þetta áður en við samþykkjum fjárlögin.

Síðan er spurningin um Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ég skildi ræðu þingmannsins svo að hann væri alveg andvígur öllum ríkisrekstri á bönkum og teldi alls ekki neitt vit í því að vera með samfélagsbanka. Er hann þá ekki líka á móti því að ríkið sé að vasast í því að reka einhvern innviðafjárfestingabanka í Asíu? Hann er sannarlega ríkisbanki, það eru bara ríkissjóðir sem eiga í honum. Eini munurinn á þessu tvennu er að samfélagsbanki hérna heima yrði að miklu gagni fyrir allan almenning á Íslandi en þessi (Forseti hringir.) innviðafjárfestingabanki í Asíu mun bara nýtast hugsanlega einhverjum verkfræðistofum í útrás, ekki almenningi á Íslandi. Hvernig getur hann réttlætt það að styðja þetta?