145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég vekja athygli á því að hér var hv. þm. Frosti Sigurjónsson að gagnrýna Bankasýsluna og ég að verja hana þannig að það sé alveg sett í þingtíðindi að það kom að því. Úr því við erum með Bankasýsluna held ég að við verðum að treysta henni til að koma með þessar áætlanir.

Varðandi hins vegar Asíubankann er hann til kominn vegna þess að hann á að vera mótvægi við Bretton Woods stofnanirnar sem voru settar upp í lok síðasta stríðs. Það var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þróunarsjóðurinn og GATT sem síðan varð Alþjóðaviðskiptastofnunin. Ég held að öll Evrópusambandsríkin séu inni í þessu. Bandaríkjamenn og Japanir hafa hins vegar ekki viljað það og lögðu upp með það að við ættum ekki að taka þátt í þessum banka. Ef ég skil þetta rétt erum við með Evrópusambandinu hvað þetta varðar og það má alveg hafa allar (Forseti hringir.) skoðanir á því. Ég get ekki farið yfir þau mál öll (Forseti hringir.) á þessari mínútu, en kannski gefst tækifæri til þess seinna, virðulegi forseti.