145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir, að hv. þingmaður hafi sagt að það sýndi sig í þessum niðurstöðutölum í fjáraukalagafrumvarpinu að skattstefna ríkisstjórnarinnar skilaði sér vel. Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef ég tók ekki rétt eftir. Þegar líða tók á ræðuna hjá hv. þingmanni dró hann fram þann vanda sem virðist vera við innheimtu virðisaukaskatts þar sem hann innheimtist ekki jafn vel og áætlað var. Breytingarnar sem hæstv. ríkisstjórn gerði á sköttum á árinu 2015 voru fyrst og fremst á virðisaukaskattskerfinu og að taka vörugjöldin niður. Árið 2014 hækkaði hæstv. ríkisstjórn hins vegar umtalsvert gjöld á þá sem þurfa á hjálpartækjum og heilbrigðisþjónustu að halda.

Ég spyr því hv. þingmann: Hvað er það nákvæmlega í breyttu skattumhverfi á árinu 2015 sem gefur tilefni til að draga þá ályktun að það sé skattstefnu hæstv. ríkisstjórnarinnar að þakka að vel gengur? Er það ekki einmitt merki um hið andstæða þegar skoðað er hvernig virðisaukaskatturinn innheimtist þar sem neðra þrepið var hækkað upp í 11% á árinu 2015 en það efra lækkað niður í 24%? Þar virðist eitthvað hafa farið úrskeiðis ef marka má (Forseti hringir.) tölur yfir virðisaukaskattsinnheimtuna.