145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Mér fannst hv. þingmaður fara ágætlega yfir mikilvægi snjómoksturs og nefndi nokkra þætti sem taka þarf tillit til en hefur ekki verið gert áður, t.d. fiskflutningana og ekki síður ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan þýðir það, ef við ætlum að halda úti ferðaþjónustu og það er markmið okkar og hlýtur að vera það, að dreifa þarf ferðaþjónustunni sem víðast um landið. Þess vegna eru menn að opna fleiri leiðir inn í landið eins og á Egilsstöðum og Akureyri með beinu flugi þangað. Vonandi tekst sú tilraun vel. En þótt svo verði ekki þá þurfum við samt sem áður, ef við ætlum að halda úti ferðaþjónustu, að gera það kleift að alltaf sé hægt að komast þangað allt árið.

Við sem höfum verið að gagnrýna þetta höfum bent á að þetta eru forsendurnar sem liggja fyrir og vanda þarf áætlunargerðina. Síðan er það auðvitað þannig, eins og hv. þingmaður sem býr norður í landi þekkir betur en margur hér inni, að mjög misjafnt er hversu mikil snjóþyngsli eru á hverju ári. En þetta er samt sem áður ekki þannig að menn geti ekki gert áætlanir til lengri tíma og verið með sveiflujöfnun í því. Fjáraukalög ættu að vera algjörlega óþörf nema þegar eitthvað sérstakt kemur til eins og náttúruhamfarir og annað slíkt.

Síðan nefndi hv. þingmaður dæmi um sparisjóðina í tengslum við samfélagsbankana. Það er hins vegar gott að hafa í huga, þegar við ætlum að skammast yfir forsvarsmönnum sparisjóðanna, að fyrir bankahrunið þegar gekk hvað best í fjármálastarfseminni þá náðu menn samt sem áður ekki endum saman í hefðbundnum rekstri sparisjóðanna. Jafn skrýtið og það nú var. Þetta voru of litlar einingar til að geta skilað hagnaði. Þess vegna fóru menn væntanlega út í aðra starfsemi sem var áhættusöm og á endanum fór hún illa.

Í lokin fannst mér hv. þingmaður fara ágætlega yfir að það skiptir nefnilega máli að forgangsraða í ríkisfjármálunum til þeirrar þjónustu sem við erum sammála um að veita.