145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Hann staðfesti að það var heimild í fjárlagafrumvörpum til að selja 30% í Landsbankanum og sömuleiðis til að selja hlutinn í Arion banka og Íslandsbanka. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir, þetta er afskaplega skýrt. Þetta var í fjárlagafrumvörpum síðustu ríkisstjórnar og mig minnti það, þess vegna fannst mér svolítið sérstakt að hv. þingmaður skyldi tala við mig eins og það væri fullkomlega ábyrgðarlaust að hafa þetta áfram, því að þetta var svo sannarlega komið fram í tíð ríkisstjórnar hans. Hins vegar veit ég ekki til þess að það sé nein deila um það að þegar kemur að því að selja þessa hluti skiptir máli að tímasetja það vel og fara ekki hratt í það. Ég vona að það verði áfram samstaða um það. Mér finnst svolítið, þó svo að hv. þingmaður hafi ekki gert það í þessu andsvari, hann talaði ekki hart gegn þeirri stefnu sem hann markaði í rauninni sjálfur þegar kom að sölu á þessum hlutum.

Varðandi sparisjóðina og það að líta áratugi aftur tímann þá er ekki mjög gott að gera það. Ég var viðskiptavinur sparisjóðanna, byrjaði mín fyrstu bankaviðskipti þar og var ansi lengi þar. Ég held að við getum ekki, jafnvel þótt við dettum í skemmtilega nostalgíu, farið aftur til þeirra tíma. Ég man alveg eftir Sparisjóði Akureyrar þegar þar var einn gjaldkeri og maður beið í einfaldri biðröð eftir að taka út fjármuni. Þeir tímar eru liðnir. Vandinn við sparisjóðina var náttúrlega sá að þegar kom að stærri verkefnunum var erfitt að sinna þeim. Ég held að mjög mikilvægt sé að við lágmörkum áhættuna af bankastarfseminni og að það sé algjört markmið, en við verðum að horfa raunhæft á hlutina. Því miður dugar ekki (Forseti hringir.) að líta einhverja áratugi aftur í tímann til að ákveða hvernig bankakerfi við höfum í dag. Það var ekki einu sinni internet á þeim tíma þegar sparisjóðirnir voru kannski með þokkalega afkomu.