145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð með þessari umræðu í dag, að hluta til úr fjarlægð. Ég er ekki alveg frá því að það hafi orðið kaflaskil í þingsögunni og að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi slegið ákveðið met, met í óskammfeilni. (ÖS: Láttu hann heyra það.) Í hverju liggur þetta met? Jú, það kom fram í umræðu hér um samfélagsbanka. Hv. þingmaður vildi vita tvennt, annars vegar hvort hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefði ekki hugleitt það að samfélagsbanki stæðist ekki samkeppnislög — með öðrum orðum, að banki sem þjónaði viðskiptamönnum sínum fremur en eigendum sem vildu hirða út úr honum arð stæðist ekki íslensk samkeppnislög. Hitt atriðið, sem var kannski hið eiginlega met sem hv. þingmaður sló, var þegar hann spurði um hugsanlegan samfélagsbanka og hvort þingmaðurinn hefði ekki hugleitt hvort sporin hræddu ekki og var þá greinilega hugsað til Landsbankans og Búnaðarbankans sem voru í eigu og á forræði ríkisins á sínum tíma en voru síðan hlutafélagavæddir og einkavæddir, þ.e. seldir, og þá hófst fjörið. Þeir fóru á hausinn og tóku íslenska þjóðarbúið með sér í fallinu. Hv. þingmaður spyr ekki um það. Hann spyr hvort sporin frá fyrri tímum hræði ekki, væntanlega frá 9. og 10. áratugnum, frá því að þessir bankar voru samfélagseign. En veruleikinn er sá … (Gripið fram í.) — Ég hlustaði á hv. þingmann. Veruleikinn er sá að þessir bankar nutu aldrei ríkisstuðnings. (GÞÞ: Víst.) Landsbankinn gerði það um skeið rétt upp úr 1990 og hver einasta króna var greidd til baka. Þessir bankar voru ekki byrði á íslensku þjóðarbúi. (VigH: Við erum að ræða fjáraukalög 2015.) — Við erum að ræða fjáraukalög, já, við erum vissulega að því.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hvetur til þess að við höldum okkur við fjáraukalögin. (GÞÞ: Ekki stoppa …) Ég bendi þá á bls. 45 þar sem fjallað er um Landsbankann og þá tillögu ríkisstjórnarinnar að 30% í Landsbankanum verði seld á næsta ári. Það hafði staðið til að selja 15% á þessu ári og 15% á komandi ári, en hér stendur (Gripið fram í.) að það sé ásetningur ríkisstjórnarinnar að selja 30% núna. (Gripið fram í.) Gegn þessu (Gripið fram í.) hafa verið færð sannfærandi hagfræðileg rök. Á sama tíma er verið að selja aðra banka. Nú er slitabú Kaupþings að selja Arion banka og allt stefnir í að ríkissjóður eignist Íslandsbanka að fullu og jafnframt eru líkur á því að hann verði seldur á undan Landsbankanum, þ.e. þessum 30% í honum. (Gripið fram í.) Þá verður komið æðimikið fé og margir hlutir á markaði og því er ekki skynsamlegt út frá hagfræðilegum rökum, bisnessrökum, að ráðast í þessa sölu.

Annars vil ég taka undir það með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að hvetja ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann til að hverfa frá þessum áformum, að við einhendum okkur frekar í að gera Landsbankann að samfélagsbanka og að við samþykkjum frumvarp sem liggur fyrir um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða. Það frumvarp hefur verið kynnt í þinginu. Síðan reynum við að gera Landsbankann að samfélagsbanka. Hvað þýðir það? Það þýðir það að bankinn verði rekinn í þágu viðskiptavina sinna fremur en eigenda sinna. Hver er munurinn á þessu? Sami munur og kom fram í máli fyrrverandi forstjóra Pósts og síma og þess sem fór með forræðið eftir að sú stofnun var gerð að hlutafélagi og síðan sett á markað. Þeir voru báðir spurðir að því einu sinni hvert þeirra markmið væri, hvað þeir sæju vera sitt markmið sem forstjóri. Sá fyrri sagði: Það er að veita landsmönnum góða, ódýra og hagkvæma þjónustu. Það tókst. Landssíminn rak hér símaþjónustu sem var ódýrust á byggðu bóli í gervöllum heiminum. Á sama tíma skilaði þessi stofnun 2–3 milljörðum í ríkissjóð á hverju einasta ári. — Nú lítur hv. methafi til himins. [Hlátur í þingsal.] Það er ekki að undra. — Þetta er bara veruleikinn og þetta eru tölur frá fyrri hluta 10. áratugarins. (Gripið fram í: Eigum við ekki að halda okkur á þessari öld?) Síðan kom seinni forstjórinn og hann var spurður þessarar sömu spurningar: Hvað sérð þú sem þitt meginmarkmið í þínu starfi? Hann svaraði: Það er að skapa eigendum Símans arð og passa upp á hlut og hagsmuni eigenda.

Þetta er ólík nálgun sem skiptir miklu máli og menn eru farnir að horfa til mjög víða um heiminn. Í Bandaríkjunum hafa mörg sveitarfélög ráðist í eða íhugað að setja á fót samfélagsbanka í sveitarfélaginu. Þau eru orðin þreytt á gambli fjárfesta og sveiflum á (Gripið fram í.) vöxtunum. Þar er sú hugsun að ryðja sér til rúms. Hún er líka að ryðja sér til rúms hér á landi. Ég fagna því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis skuli hafa haft forgöngu um þá umræðu sem við höfum tekið undir, enda verið á þessu máli mörg hver og kannski flest úr stjórnarandstöðunni.

Þegar við horfum heildstætt á þessi mál þá þykir mér, hvernig sem við nálgumst málið, vera mikilvægt að halda Landsbankanum í samfélagseign. Í fyrsta lagi bendi ég á þessi hagrænu rök og þá er óráð að ráðast í þessa sölu á komandi ári. Ég tel það vera óráð í ljósi aðstæðna. Í annan stað spyr ég hvort menn vilji verða af þeim hagnaði sem er af þessari stofnun. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hagnaðurinn 24,4 milljarðar af Landsbankanum og ekki ótrúlegt að hann gæti orðið 30 milljarðar á árinu í heild sinni. Ég tek hins vegar undir með þeim sem tala fyrir samfélagsbanka að ávinningurinn af því að reka slíkan banka eigi ekki að liggja í þessum hagnaði. Hann á að liggja í ódýrri, hagkvæmri þjónustu. Þar á hagnaðurinn að liggja. Í því á hinn samfélagslegi ávinningur af því að reka samfélagsbanka að vera fólginn.

Hér á árunum fyrir hrun horfðu allir upp á við jafnan og reyndu að finna leiðir til að auka hagnaðinn, hækka vextina o.s.frv. Nú eigum við að hugsa á annan veg, á hófstilltari hátt. (VigH: … seðlabankastjóra.) — Það er alveg rétt. Ég er mjög andvígur því sem er að gerast í Seðlabankanum varðandi stýrivextina og tel það vera mjög slæman kost sem þar er valinn enn eina ferðina.

Enn eitt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi var Íbúðalánasjóður. Það var samfélagsbankinn sem hann staðnæmdist fyrst og fremst við. Ég get ekki tekið undir tal um Íbúðalánasjóð, að hann hafi verið sú ófreskja sem margir vilja mála hann í þessum þingsal og hafa iðulega gert. Hann varð eitt af fórnarlömbum hrunsins líka. Ég tek ekki undir með þeim sem telja að það hafi verið goðgá á sínum tíma að fara með lán upp í 90%. Mér finnst það í rauninni alveg stórhlægileg umræða að jafnvel þeir sem dásama það sem þeir kalla Evrópuvexti, sem eru lágir vextir, og vilja öllu til kosta að fá vextina sem allra lægsta skömmuðust út í þá (Gripið fram í.) sem vildu láta Íbúðalánasjóð bjóða okkur upp á lága vexti. Það þótti þá hinn stærsti og versti glæpur að innleiða Evrópuvexti þar, eða lága vexti. Er það ekki það sem við stefnum alltaf að? Hvers vegna fóru menn þá að óskapast út í það þegar Íbúðalánasjóður gerði þetta og átti síðan í stórfelldu stríði við bankakerfið sem vildi koma honum fyrir kattarnef? Ég þekki það mjög vel sem stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins þegar við fengum nálganir frá bönkunum um að taka höndum saman um að setja Íbúðalánasjóð út á gaddinn. (VigH: Já.) Þetta er bara veruleikinn. Síðan er Íbúðalánasjóður allt í einu orðinn blóraböggullinn. Að sjálfsögðu varð hann fyrir skakkaföllum eins og allt fjármálakerfið, lífeyrissjóðirnir, sveitarsjóðirnir, ríkissjóður, allt kerfið sem bankarnir hér settu á hliðina. Að sjálfsögðu gerðist það.

Síðan finnst mér eitt vera mótsagnakennt og ég vil fá skýringar á því. Það væri fróðlegt ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem hefur tekið mjög hressilega þátt í þessari umræðu og er það vel, það er gott, gæti komið með alla vega sínar skýringar á því. Það væri fróðlegt að heyra hans viðhorf. Það er þessi Asíubanki. Þeir sem ekki mega sjá eignarhlut ríkisins í bönkum á Íslandi vilja setja 2,3 milljarða í innviðabanka í Asíu. Þetta á að vísu ekki að koma í einum skammti heldur í 100 millj. kr. skömmtum og síðan innkallanlegt fé. Ríkið á að taka þátt í því vegna þess að þar er svo mikil uppbygging. Er ekki einhver mótsögn á ferðinni hérna? (Gripið fram í.) Ég bara spyr. Þessir aðilar vilja ekki neina aðkomu ríkisins að innlendu fjármálakerfi sem þarf sárlega á því að halda í okkar smáa efnahagskerfi, að hér sé kjölfesta í fjármálalífinu sem væri þá í gegnum ríkisbanka, samfélagsbanka, Landsbankann, en á hinn bóginn vilja þeir að við ráðumst í milljarða fjárfestingar í innviðabanka í Asíu. Telja menn að þessar fjárfestingar ríkjanna muni greiða sérstaklega götu fyrirtækja þeirra ríkja sem þar koma að málum, að bisnesslífið gangi eftir þeim lögmálum, eftir þeim ferlum? Ég hefði haldið ekki. Þetta er nokkuð sem ég skal viðurkenna að ég þekki ekki í þaula, ég geri það alls ekki, en mér finnst vera mótsagnakennt að vilja annars vegar losa ríkið út úr allri fjármálastarfsemi á Íslandi — hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vill náttúrlega ekki láta staðnæmast við að selja Landsbankann, hann vill Íbúðalánasjóð líka út af veraldarkortinu nema hann verði bara þröngur stuðningssjóður við fátækustu landsmenn, þannig skil ég þetta — en að vilja á sama tíma ráðast í fjárfestingar úti í Asíu. Það er nokkuð sem ég skil ekki.