145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór mikinn, eins og stundum áður, og sagði að ég hefði sett met í óskammfeilni. Úr því við erum á þeim stað þá hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson væntanlega sett met í misheppnuðum málflutningi vegna þess að hann hlustaði einfaldlega ekki á ræðu mína. Hann leggur út af því að ég hafi verið að tala um Landsbankann og Búnaðarbankann á níunda áratugnum; ekki eitt orð, ég nefndi ekki eitt orð um það. Hv. þingmaður kemur hér bandbrjálaður upp og húðskammar mig fyrir ræðu sem ég hélt ekki. Hvaða rugl er þetta, virðulegi forseti?

Er óeðlilegt, þegar við erum að ræða samfélagsbanka, að spyrja hvernig menn ætla að láta hann uppfylla samkeppnisskilyrði? Er það óeðlilegt? Er óeðlilegt að líta á Íbúðalánasjóð, sem átti að vera samfélagsbanki þess tíma? Ég og hv. þingmaður tókum þessa umræðu á sínum tíma um Íbúðalánasjóð. Gallinn við Íbúðalánasjóð, sem fór á hausinn eins og sparisjóðirnir og eins og einkabankarnir og ýmislegt annað, var sá að við sátum uppi með allt tapið. Af hverju? Af því að menn ætluðu að ná markmiðum um samfélagsbanka. Hann var út um allt og hv. þm. Ögmundur Jónasson vildi svo sannarlega sjá það markmið að hann héldi markaðshlutdeild sinni. Það þýddi, vegna þess að það varð ofan á, að íslenskir skattgreiðendur töpuðu meira en þeir þurftu.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Var hann virkilega að tala um að hann vildi að ríkið ætti Landssímann? Er hv. þingmaður virkilega að halda því fram að við værum í betri stöðu ef íslenska ríkið ætti Landssímann enn þá?