145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:32]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Forseti. Það er ákaflega forvitnilegt að vera viðstaddur þessa umræðu í dag, en ég kem hingað nýr inn á nýjan vinnustað. Mig langar sérstaklega að tína út nokkra punkta sem mér hafa þótt áhugaverðari en aðrir.

Í fyrsta lagi er það sú regla sem virðist vera að vanáætla tekjur inn í fjárlög vegna arðgreiðslna fjármálastofnana. Það er svolítið sérstakt að telja það ekki fram þegar allir vita að þetta muni koma. Ég velti fyrir mér að ef þetta væri svona hjá okkur í sveitarfélögunum þá mundum við væntanlega fá bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga um fjármálin. Þessu þarf að breyta og þarf að sjálfsögðu að setja inn í áætlunargerðina ef það er klárlega vitað að tekjurnar munu koma. Alveg sama þó að þær aukatekjur gleðji hjarta hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þegar þær koma, þá er það bara þannig að þetta á að sjálfsögðu að vera inni.

Það hefur líka verið svolítið skemmtilegt að fylgjast með hvernig menn hafa talað hvor í sína áttina þó að þeir séu hluti af ríkisstjórninni, annars vegar hv. þm. Frosti Sigurjónsson og hins vegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Þeir tala algjörlega hvor í sína áttina hvað varðar samfélagsbanka og það er svolítið sérstakt fyrir mig svona nýkominn hingað inn að hlusta á það. Hver niðurstaðan verður veit ég ekki, en þetta er vissulega ruglingslegt.

Ég vil taka annan punkt fram, þ.e. þær arðgreiðslur sem virðast vera að skila sér til eigandans, til ríkisins, og þessi flýtir að verða þá að selja. Af hverju er verið að flýta sér að selja?

Ég vil einnig taka fram enn annan punkt sem var í umræðunni um Íbúðalánasjóð. Nefnt var hugtak sem kallast markaðsbrestur. Ég lærði það hugtak þegar ég var í stjórn Strætó/Almenningssamgöngur á vegum Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi. Þá var það markaðsbrestur að vera með einkaleyfi á leiðum sem ef til vill gætu skilað hagnaði. Í því samhengi var talað um markaðsbrest varðandi Íbúðalánasjóð. Hann hefði bara átt að lána peninga á staði þar sem fasteignaverð væri mun lægra en markaðsverð. Þetta tvennt er í rauninni skilgreining á því að einkavæða hagnað en ríkisvæða kostnaðinn. Þess vegna hrekk ég svolítið við þegar ég heyri þetta hugtak og kann ekkert rosalega vel við það.

Ég vil líka koma aðeins að orðum hv. þm. Karls Garðarssonar. Í fjáraukalagafrumvarpinu er talað um 850 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða. Hann vill brýna hæstv. iðnaðarráðherra að kippa þessu í liðinn, og þing allt. Ég er alveg hjartanlega sammála honum og mér finnst ótrúlegt hversu langan tíma það hefur tekið að koma þessum málum í einhvern farveg. Á meðan eru ferðamannastaðir eins og Stykkishólmur, þaðan sem ég kem frá, og Snæfellsnes allt og Vestfirðir og fleiri staðir komnir í vandræði með uppbyggingu á ferðamannastöðum til að taka við þeirri gleðilegu aukningu á ferðamönnum. Af því að við erum eyja er þetta í sjálfu sér ekkert flókið. Það þarf bara að taka ákvörðun. Menn voru ekki lengi að taka ákvörðun um að lækka veiðigjöld. Menn voru heldur ekki lengi að taka ákvörðun um að lækka sykurskatt eða hækka matarskatt. En þetta vefst alveg ótrúlega fyrir þingheimi, þá ekki síst hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég hafði líka svolítið gaman af að heyra umræðuna um Landssímann. Við sem búum úti á landi þekkjum þá sögu og þingmenn landsbyggðarinnar þekkja þá sögu. Sagt var að ekki væri hægt að taka dreifikerfið út úr Landssímanum og var það selt með. Það var samt selt út úr Landssímanum áður en ár var liðið. Þessu eru hinar dreifðu byggðir að súpa seyðið af í dag. Ég þekki það mjög vel því að nágrannasveitarfélag Stykkishólms, Helgafellssveit, lagði í tugi milljóna kostnað við að leggja ljósleiðara því að enginn hafði pólitísk tök á því að krefjast jafnrar þjónustu. Það eru talsverðir peningar fyrir sveitarfélag sem telur 53 eða 56 einstaklinga.

Menn töluðu um það rétt áðan varðandi Landssímann að það hefði verið ólánskerfi að samnýta Landssímann með póstinum. Ég held nefnilega að það hafi verið talsvert sniðugt. Ég horfi á það til dæmis í Stykkishólmi að rúta kemur um nótt sunnan úr Reykjavík með póst. Önnur rúta kemur um morguninn með farþega. Í millitíðinni hefur bíll komið með Moggann. Nú er það ekki þannig að ég ætli að hafa áhyggjur af því að Mogginn komist í Stykkishólm. (Gripið fram í: Jú, hann verður að komast …) Það er nú kannski þannig að Mogginn hefur sína sponsora í það og mun gera það áfram. En þannig vill til að sonur minn ber hann út í hverfið og í nágrennið, duglegur strákur. Þetta kom allt með sama bílnum fyrir ekki mörgum árum. Af því að alltaf er verið að tala um viðskiptamódel og að hagræða, þá er þetta akkúrat öfugt. Þetta heitir að klippa hagræðinguna út, að þrír bílar komi í staðinn fyrir einn. Það var svolítið sérstakt fyrir mig að upplifa að þetta skuli hafa verið neikvætt.