145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna bankanna. Hv. þingmaður fullyrti að það væri verið að flýta sér að selja. Ég var að benda hv. þingmanni á að heimild til að selja þessa eignarhluta hefur verið í fjárlögum ansi lengi. Þannig að sú fullyrðing stenst ekki að menn hafi í sérstöku hraði verið að gera það.

Hér tala menn og setja hlutina þannig upp að við séum annars vegar með hinar dreifðu byggðir: Þjónustan er ekki eins góð og við vildum hafa hana, það væri stórkostlegt að fara til baka. Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði meira að segja í fullri alvöru um það að við værum betur sett ef ríkið ætti Landssímann og Póstinn — við eigum að vísu Póstinn — og myndum setja það inn í eitt félag, þá væri þjónustan miklu betri. Ég gat ekki skilið það á annan hátt, og hv. þingmaður leiðrétti mig ef ég er hef túlkað orð hans rangt, en að hann væri ánægður með það fyrirkomulag, að hann hefði viljað sjá Landssímann; Póstur og sími eins og þetta var.

Það sem ég er að benda mönnum á er að á þessum tíma — ég man þennan tíma alveg ágætlega. Gott ef Póstur og sími átti ekki á einhverjum tímapunkti öll símtækin á landinu. Ég held að við höfum fengið þau á leigu en það má vera rangt. Þá voru menn með snúrusíma, ekki farsíma. Það var ekkert internet og ekki þessi ótrúlega hraða þróun og fjölbreytni og samkeppni sem er á þessum markaði. Við fengum gríðarlega mikla fjármuni fyrir Landssímann þegar hann var einkavæddur á sínum tíma. Tapið sem varð af fjárfestingum Landssímans fór á eigendur Landssímans og þá sem lánuðu Landssímanum — eða réttara sagt Símanum, þetta heitir víst ekki Landssíminn lengur.

Ef menn trúa því að í þessu umhverfi væri algerlega stórkostlegt að við ættum ríkisfyrirtæki inni á þessum markaði, þessum gríðarlega samkeppnismarkaði, þá væri ástandið betra, þá er það bara skoðun hv. þingmanna og það er gott að hún komi hér fram. Ég vil bara segja eins og er að ég er algerlega ósammála henni og hafði ekki hugmynd um að til væri svona vinstri sinnað fólk á Íslandi. Það er bara gott að það komi mjög skýrt fram í þessari umræðu og er staðfest hér.