145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða, hefur farið kannski á svolítið annan stað en við höfðum ætlað. Mér hefði fundist að grundvallarspurningarnar í málinu væru um það hvað ætti heima í fjáraukanum vegna þess að það er ákveðin skilgreining á því. Sumt er ófyrirséð sem menn geta ekki vitað af og þurfa því að bregðast við með þessum hætti. Þetta er svona ákveðið neyðarúrræði. Mér hefur fundist vera ákveðinn samhljómur hjá mörgum um að breyta því vinnulagi og það voru ákveðnir hv. stjórnarandstæðingar sem ræddu það, en mér sýnist samt sem áður að okkur vanti nokkuð á að ná pólitískri samstöðu um raunverulegan aga í ríkisfjármálunum. Þó svo að hæstv. ríkisstjórn hafi án nokkurs vafa stigið gríðarlega stór skref í þá áttina og ánægjulegt að sjá bætta afkomu ríkissjóðs og niðurgreiðslu skulda, sem er gríðarlega stórt mál, þá vantar enn upp á þverpólitíska samstöðu um aga í ríkisrekstri.

Hér hafa verið rædd ýmis mál, kannski meira en maður hafði átt von á, en sem nauðsynlegt er að ræða og kom ýmislegt fram sem kom mér á óvart. Ég vil vegna orða síðasta hv. þingmanns út af dreifikerfinu — ég get ekki álasað hv. þingmanni fyrir það, þetta snýst ekki um það, hann kemur inn nýr og með ágætisinnkomu, málefnalegar og góðar ræður — nefna að það hefur verið eitt helsta markmið meiri hluta fjárlaganefndar og hæstv. ríkisstjórnar að styrkja dreifikerfið um landið og hafa verið settir sérstakir fjármunir í það af þeim ástæðum sem hv. þingmaður vísaði sérstaklega í. Hv. þm. Haraldur Benediktsson og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hafa lagt upp áætlun, sem ég tel vera mjög góða, í samvinnu við hæstv. innanríkisráðherra og ég vonast til að þverpólitísk samstaða náist um að fylgja henni eftir.

En ég átti hins vegar ekki von á því í lokaræðunni að vara við hugmyndum um stórkostlegan ríkisrekstur á miklum samkeppnismörkuðum, en ég held að full ástæða sé til að gera það. Menn fóru hér að ræða hluti sem hafa verið reyndir áður, þ.e. samfélagsbanki, sem við höfum verið að greiða og taka kostnaðinn af beint úr vösum skattgreiðenda. Ég held að við þurfum að hugsa þá hluti vel. En bætt var í því að menn vildu að ríkið kæmi af fullum þunga inn í samkeppnisrekstur á fjarskiptamarkaði og það eru nú ekki síður stórhættulegar hugmyndir.

Síðan er stóra málið sem ég hef vakið oft athygli á og tel að það ætti að vera lærdómur okkar af alþjóðlega bankahruninu, þ.e. að við eigum að ganga þannig fram að við séum að lágmarka áhættu skattgreiðenda af fjármálarekstri. Það er alþjóðlegt vandamál. Við komum sem betur fer tiltölulega vel út úr því þrátt fyrir að vera í erfiðari stöðu en margar og kannski flestar þjóðir, vegna þess að við nýttum ekki peninga skattgreiðenda nema að litlu leyti miðað við aðrar þjóðir í að bjarga bankakerfinu. En ég er algerlega sannfærður um það, því miður, og veit það, þó að ég viti ekki hvenær og vonandi verður það í sem fjærstri framtíð, að það gerist aftur að bankar munu fara á hausinn. Við munum aftur sjá bankahrun. Þá er lykilatriði að við höfum búið þannig um hnútana að tap skattgreiðenda verði sem allra minnst. Mér finnst ekki að við Íslendingar eða þær þjóðir sem við berum okkur saman við séum komin á þann stað að vera búin að lágmarka þá áhættu. Þetta er í rauninni nokkuð sem er gríðarlega stórt mál, og eins og með mörg stór mál þá eru þau allt of lítið rædd.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Mér hefur hún fundist vera alveg prýðileg. Ef hún var ekki beinlínis um efni máls, sem var um fjáraukalögin, þá var hún alla vega mjög skemmtileg. Ég skal alveg gangast við því að ég hafði gaman af henni og margt kom mér á óvart, sérstaklega sjónarmið vinstri sinnaðra stjórnmálamanna hér inni og maður getur alla vega sagt frá því að ýmsar hugmyndir, sem maður hélt að væru algerlega farnar út af borðinu, eru sprelllifandi í sölum þingsins.