145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

263. mál
[19:02]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar framsögu í þessu máli. Við í umhverfis- og samgöngunefnd fengum þetta mál til umfjöllunar á síðasta þingi og eins og hún gat sér réttilega til var lítill tími til að vinna það. Það átti að klárast á nokkrum dögum.

Ég hef spurt sveitarfélögin, sérstaklega þau minni úti á landi, hvað þeim finnist um frumvarpið og þau virtust ekki hafa heyrt af þessu. Mig langar því að spyrja ráðherrann — fyrirgefðu hæstv. forseti, er ég í andsvari eða ræðu?

(Forseti (EKG): Ræðu.)

Ég er í ræðu. Allt í lagi. Ég hélt ég væri í andsvari. Þá hefur ráðherrann kannski tækifæri til að svara þessu á eftir.

Minni sveitarfélögin virtust mörg hver ekki vita af þessu. Kannski að ráðherrann geti komið inn á það hvort þetta hafi verið kynnt fleiri sveitarfélögum eða hvort þau séu meðvituð um að svokallaður bankaskattur af séreignarleið sé að fara fram hjá jöfnunarsjóði, frá minni sveitarfélögum til hinna stærri. Stærri sveitarfélögin eru með fleiri íbúa sem nýta séreignarsparnaðinn og verða því af tekjum. Ég velti líka fyrir mér hvort þetta sé þá í andstöðu við markmið laganna um jöfnunarsjóð, um að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa lægri tekjur og hafa minna bolmagn en sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg.

Ég ætla að kasta fram einni tölu sem kannski er óábyrgt af mér, en heildarútsvar Reykjavíkurborgar af öllu útsvari á Íslandi var 36%. Ég las það einhvers staðar og það þýðir að Reykjavíkurborg fengi 36% af þessum bankaskatti á kostnað minni sveitarfélaga. Ég velti fyrir mér hvort það sé það sem þingið vill gera.

Ég velti líka fyrir mér hvaða leið þetta hefur komið hér inn í þingið. Mig minnir að þetta mál hafi komið í gegnum Reykjavíkurborg, þaðan til Sambands íslenskra sveitarfélaga og þaðan inn í ráðuneytið. Það skýrir það kannski að hluta til af hverju minni sveitarfélög virðast ekki meðvituð um þetta mál. Ég er alla vega á þeirri skoðun núna þar til annað kemur í ljós í umsögnum við málið. Ég vona að minni sveitarfélög sérstaklega — ekki bara Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður, sem skiluðu umsögn um málið síðast — skili umsögnum um þetta mál. Hér er verið að tala um mjög háar fjárhæðir sem fara fram hjá jöfnunarsjóði og þeim útdeilingum og þeim reglum sem við höfum sett okkur.

Hér áðan var einnig rætt um að aðgerðin hefði tekjulækkandi áhrif fyrir sveitarfélögin en eins og ég les frumvarpið er ekki svo heldur er bankaskattur viðbót við þann tekjustofn sem fer inn í jöfnunarsjóð núna. Þess vegna eru þetta viðbótartekjur sem fara í jöfnunarsjóðinn sem mér sýnist að eigi að útdeila til stærri sveitarfélaga. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé sanngjörn skipting. Ég er ekki alveg búinn að átta mig á breytingunni í þessu frumvarpi, að álagningarhlutfallið fari eftir útsvari en ekki heildarhlutdeild viðkomandi sveitarfélags sem ráðherra sagði að væri sanngjarnari leið. Ég tek því sem góðu og gildu en velti fyrir mér hvort þetta sé almennt sanngjarnt gagnvart sveitarfélögum sem berjast í bökkum og þurfa virkilega á þessum peningum að halda. Við vitum af sveitarfélögum sem eru í fjárhagsörðugleikum. Þetta gæti líka nýst vel fyrir þau sveitarfélög sem eru að hugsa um að sameinast eða annað í þeim dúr.

Annars hlakka ég bara til að fá að glíma við þetta frumvarp í umhverfis- og samgöngunefnd. Við sjáum hvað setur þar.