145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

263. mál
[19:11]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir nánast hvert orð sem ráðherrann sagði. Við þurfum að fara vel yfir þetta og líta til beggja sjónarmiða. Ég ætlaði alls ekki að tala með þeim hætti að það væri verið að taka í sundur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég vona að það hafi ekki skilist þannig.

Það sem okkur ráðherra greinir á um er að ég lít ekki svo á að stærri sveitarfélög verði fyrir einhverju tekjutapi þó að fólk nýti sér séreignarsparnaðinn. Þau verða ekki fyrir neinu höggi af því að þetta eru framtíðartekjur. Segjum að ungur maður eins og ég nýtti sér séreignarsparnaðinn, þá væri sveitarfélagið mitt að tapa tekjum sem ég tæki kannski út eftir 50 ár. Þess vegna lít ég ekki á að þetta sé eitthvert tekjutap hjá sveitarfélögunum í dag og ekki neitt högg, heldur er verið að útdeila framtíðartekjustofni sem við höfum ákveðið að fólk fái að nýta sér núna. Okkur greinir kannski helst á um að bæta sveitarfélögum það upp.