145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

mannréttindasáttmáli Evrópu.

329. mál
[19:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að XV. viðauki við mannréttindasáttmálann verði lögfestur en ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti hann þann 16. maí 2013. Vegna hins mikla málafjölda hjá Mannréttindadómstól Evrópu hefur endurskoðun á því regluverki sem liggur til grundvallar eftirlitshlutverki dómstólsins staðið yfir um nokkurra ára skeið. Ráðstafanir hafa verið gerðar til að leysa þennan vanda, bæði á vettvangi aðildarríkjanna og Evrópuráðsins en einnig innan dómstólsins.

Teknar hafa verið upp nýjar verklagsreglur fyrir dómstólinn, breytingar hafa verið gerðar á mannréttindasáttmálanum og aðildarríkin hafa reynt að auka þekkingu og fræðslu um sáttmálann og eftirlitskerfi Evrópuráðsins. Þá hefur verið lögð áhersla á að aðildarríkin leitist við að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist sem leiða til þess að einstaklingar telji sig þurfa að bera mál undir dómstólinn.

Á síðastliðnum árum hafa verið haldnar ráðstefnur um framtíð Mannréttindadómstólsins, m.a. Interlaken 2010, í Izmir árið 2011 og í Brighton árið 2012. Á síðastnefndu ráðstefnunni var gefin út hin svonefnda Brighton-yfirlýsing sem leggur meðal annars til ákveðnar umbætur á mannréttindasáttmálanum. Í samræmi við Brighton-yfirlýsinguna ítrekar viðauki XV ábyrgð aðildarríkjanna á að vernda og tryggja mannréttindi og að besta leiðin til að minnka hinn mikla málafjölda hjá dómstólnum sé að tryggja að vernd mannréttinda sé þannig heima að ekki þurfi að leita til dómstólsins.

Viðauki XV felur fyrst og fremst í sér ákveðnar túlkunarreglur sem eru teknar upp í formála hans. Skilyrðum um aldur dómara er breytt og kærufrestur er styttur. Þá eru gerðar ákveðnar breytingar á skilyrðum fyrir því að deild eftirláti yfirdeild lögsögu sem og heimild dómstólsins til að vísa frá máli sem ekki hefur valdið kæranda umtalsverðu óhagræði er rýmkuð. Markmið með aldursskilyrðum dómara er að gefa hæfum dómurum kleift að starfa allt kjörtímabilið, þ.e. 9 ár, og efla þannig stöðugleika innan dómstólsins. Þá eru breytingar á kærufresti, úr sex mánuðum í fjóra mánuði, í samræmi við kærufresti í aðildarríkjunum. Jafnframt er talið að vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið í samskiptatækni, þar á meðal aukins hraða í samskiptum, muni þessi breyting hafa lítil áhrif á möguleika einstaklinga til að leggja fram kæru fyrir dómstólnum. Breytingar á málsmeðferð dómsins eru til þess fallnar að tryggja samræmi í framkvæmd og stytta málsmeðferð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.