145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Gunnarsson og Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneytinu.

Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi, var þá 466. mál, en varð ekki afgreitt. Frumvarpið er lagt fram á ný í óbreyttri mynd og studdist nefndin við umsagnir frá síðasta þingi við afgreiðslu málsins.

Markmið frumvarpsins er að breyta hugtakanotkun í ýmsum lögum í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að fullgildingu á hér á landi. Jafnframt er lagt til að felld verði úr gildi lög nr. 25/1962, um aðstoð til fatlaðra, og 3. gr. tilskipunar um vald til biskupa til að veita undanþágu frá fermingartilskipunum.

Nefndin bendir á að frumvarpið er hluti af þeim lagaúrbótum sem ráðast þarf í til þess að Ísland geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, líkt og Alþingi hefur nú þegar ákveðið að gert verði. Nefndin áréttar mikilvægi þess að vinnu við nauðsynlegar úrbætur verði hraðað eins og kostur er.

Í umsögn Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum er bent á að ágallar væru á núverandi þýðingu á samningnum. Nefndin ræddi þetta nokkuð og telur brýnt að innanríkisráðuneytið skoði samninginn í heild með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram hafa komið varðandi þýðingu eða orðanotkun.

Nefndin leggur til eina breytingu lagatæknilegs eðlis. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

17. gr. orðist svo:

Í stað orðsins „fatlaðra“ í m-lið 1. töluliðar 4. gr. laganna koma orðin: fatlaðs fólks.

Undir nefndarálitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Karl Garðarsson, Hörður Ríkharðsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðmundur Steingrímsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.