145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Allt of háir vextir eru eitt helsta vandamál heimila og fyrirtækja hér á landi. Það sem af er þessu kjörtímabili hafa raunvextir sem heimili og fyrirtæki í landinu þurfa að borga hækkað stöðugt.

Það kemur æ betur í ljós að rangar ákvarðanir stjórnarflokkanna um skattalækkanir á stórútgerðina, efnafólk í landinu og hátekjufólk í landinu hafa leitt til þess að vextir eru hærri hér en þeir hefðu ella þurft að vera. Seðlabankinn þarf að auka aðhaldið með vaxtastigi vegna þess að aðhaldið í ríkisfjármálum hefur verið minnkað og sköttum létt af þeim sem hafa það best.

Það er því full ástæða til að skora á ríkisstjórnina að endurskoða þessar aðgerðir vegna þess að við megum ekki lenda aftur í þeim vítahring vitleysunnar sem var hér í aðdraganda hrunsins þegar sömu stjórnmálaflokkar kepptust við að lækka skatta á forréttindastéttirnar í landinu meðan Seðlabankinn hinum megin götunnar kepptist við að hækka vexti á fólkið í landinu. Fólkið og fyrirtækin í landinu mega ekki við því að borga hærri vexti, en stórútgerðin, efnafólkið og hátekjufólkið má sannarlega við því að borga þá skatta sem það var að borga við síðustu kosningar.


Efnisorð er vísa í ræðuna